143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg prýðisgóða ræðu. Hann fór yfir ýmislegt og kom með tón sem ég kann vel við, þ.e. að við þurfum að vera óhrædd að ræða hvað má betur fara, hverju má breyta í ríkiskerfinu. Þegar koma heilagar kýr, sem gerist oft, er það ávísun á vandræði. Ég man að ég var til dæmis oft ásakaður fyrir það að taka upp málefni Íbúðalánasjóðs hér á árum áður. Bara það eitt að voga sér að ræða þá stofnun þótti vera mjög alvarlegt mál. Ég vona að við séum að fara á þann stað að við ræðum hlutina með öðrum hætti.

Hv. þingmaður nefndi landbúnaðarkerfið. Ég vildi spyrja hann hvort hann væri ekki sáttur við þá ákvörðun að leggja niður fóðursjóð. Það eru 1,4 milljarðar. Það er gamalt þingmál sem ég var með um að leggja hann niður. Ég fagna því gríðarlega og er mjög ánægður að sjá það. Mér finnst lítið hafa verið um þetta í umræðunni.

Virðulegi forseti. Svo tek ég undir orð hv. þingmanns um mikilvægi þess að við ræðum sjúklingagjöldin sérstaklega því að nú hefur komið fram að hv. þingmenn sem voru í síðustu ríkisstjórn ætluðu sér ekki að gera það sem þeir gerðu, þ.e. að hækka sjúklingagjöldin svona mikið. Við erum að tala um að víðs vegar í kerfinu virðist það ekki hafa verið stefnan en samt áður er það niðurstaðan að gjöld hafa verið hækkuð verulega.

Ég tel mikilvægt að sú nefnd sem er í gangi núna undir forustu Péturs Blöndals skili sem fyrst af sér þannig að við fáum þar með breytt kerfi. Mín skoðun er sú að við eigum að taka sambærilegt kerfi og er annars staðar á Norðurlöndunum þar sem við reynum að hlífa þeim sem eru langveikir, þurfa mikið á þjónustunni að halda og að við séum með allt heilbrigðiskerfið undir, allt saman, vegna þess að það skiptir engu máli þegar maður er veikur hvað gjöldin heita sem þarf að greiða.