143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég tel að umræðan um þessi fjárlög hafi í það heila verið prýðileg og upplýsandi um margt. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem bent hafa á að við erum auðvitað bara að byrja þessa umræðu. Við tökum hana hér í dag og á morgun og í hv. fjárlaganefnd munum við síðan fá fram sjónarmið gesta og þeirra sem gerst þekkja til. Við eigum eftir að fara enn betur yfir þetta fyrsta frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ég ætla ekki að rekja í löngu máli stöðuna sem við erum í en ég tel hins vegar mikilvægt að við séum meðvituð um það, og að við hættum ekki að minnast á það, því að það er hinn kaldi veruleiki, að við höfum verið að reka ríkissjóð með gríðarlegum halla. Það var eðlilegt að það gerðist eftir alþjóðlega bankahrunið sem við fundum verulega fyrir. Við verðum hins vegar eðli málsins samkvæmt að sníða okkur stakk eftir vexti. Nú greiðum við sem samsvarar 85 milljörðum ísl. kr. í vaxtagreiðslur og það er tvöfaldur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta er raunveruleikinn. Það sem við þurfum að gera er nákvæmlega það sama og margar aðrar þjóðir hafa gert, með ágætisárangri oftast þegar menn hafa farið í það verkefni. Við þurfum að fara yfir það hvað við viljum leggja áherslu á og hvers við getum verið án. Það er nákvæmlega þannig sem við þurfum að nálgast þetta verkefni.

Mér hefur fundist að hjá mörgum stjórnarandstæðingum og stjórnarliðum sé skilningur á þessu verkefni, sem er ekki bara verkefni þessarar ríkisstjórnar, ekki bara verkefni stjórnarliða heldur verkefni okkar allra. Það breytir engu hvað viðkomandi einstaklingur heitir sem er í ráðherrastóli, hvað flokkurinn heitir sem er í ríkisstjórn, þetta er alltaf verkefnið. Nú erum við svo lánsöm að við getum skoðað hvað aðrar þjóðir hafa gert og við getum lært af því. Það er reyndar þannig að þau lönd sem við berum okkur saman við fóru í gegnum svipaða hluti fyrir áratug eða svo, eða rúmlega það, kannski einum og hálfum áratug. Niðurstaðan eftir þá vegferð sem þau fóru í eru úttektir og skýrslur sem við höfum því miður ekki enn notað til fulls til að ná þeim árangri sem ég held að við séum öll sammála um.

Staðan er sú að hallinn á ríkissjóði er að öllu óbreyttu 30 milljarðar kr. Loforð voru gefin á þeirri forsendu að menn hefðu náð endum saman en þegar farið var yfir það kom í ljós að ekki voru til peningar fyrir því og það er slegið af. Mér finnst það ekki ganga upp hér í umræðunni að kalla það niðurskurð og ég ætla ekkert að benda á neinn einn í því. En það bara gengur ekki upp.

Ef kosningar væru eftir nokkra daga og svo kæmu yfirlýsingar um að milljarðar ættu að fara í þetta, 500 milljónir hér, 2 milljarðar þar, og síðan kæmi ríkisstjórn eftir kosningar sem sæi að ekki væru til peningar fyrir þessu, að þessu þyrfti að breyta, þá er það ekki niðurskurður vegna þess að engir fjármunir voru til. Hvað eftir annað hafa menn komið hingað upp og sagt að þessi ríkisstjórn hafi mætt hér á þingi og slegið skjaldborg um auðmenn. Hvernig var það gert? Það var ekki með því að taka af auðlindaskattinn, nei, það var með því að framfylgja stefnu síðustu ríkisstjórnar um auðlindaskatt, með því að framfylgja stefnu síðustu ríkisstjórnar um að framlengja hann ekki.

Svo breyttu menn veiðigjaldinu. Ef núverandi ríkisstjórn hefði ekki gert neitt í veiðigjaldinu, hverjar skyldu tekjurnar þá hafa orðið? Þær hefðu ekki orðið neinar. Ef menn hefðu viljað lækka veiðigjaldið hefðu menn bara átt að láta það algjörlega eiga sig að gera nokkuð í því á sumarþingi. En því var breytt á þann veg að hærri gjöld leggjast á stærri útgerðir og veiðigjöld hafa aldrei verið hærri, sjávarútvegurinn hefur aldrei greitt hærri gjöld. Það skiptir máli að þessar staðreyndir liggi fyrir.

Ef menn vilja tala um þessa hluti með einhverjum öðrum hætti — ég ætla bara að segja að ég mun ekki þreytast á að benda á mótsagnirnar og rangfærslurnar í því. Mér finnst tíma mínum ekki vel varið í það, en ég ætla ekki að láta menn komast upp með að segja þessa hluti hvað eftir annað með það að markmiði að fólk fari að trúa því sem ekki er rétt.

Ef við ætlum að nálgast umræðuna á þann veg að ef ekki sé tekinn skattur í þeirri prósentu eða í þeim mæli sem einhverjum dettur í hug að þá sé verið að veita afslátt af viðkomandi skatti — ef við ætlum að nálgast hlutina þannig kemur það illa niður á síðustu ríkisstjórn þá kemur það illa niður á hv. þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson benti á í umræðunni í gær. Ef við notum þessa mælistiku þá má segja að síðasta ríkisstjórn hafi gefið erlendum auðmönnum, ríkasta fólki í heimi, um 40 þús. milljónir og ætlaði bara að halda því áfram. Við værum komin langleiðina með að byggja nýjan spítala ef menn hefðu þá viljað nýta þessa fjármuni í það.

Ef við notum orðfæri vinstri manna á Íslandi þá var það síðasta ríkisstjórn, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, sem fann ríkasta fólk í heimi og gaf því tug þúsundir milljarða, hvorki meira né minna, peninga sem við hefðum getað notað til að byggja nýjan spítala. Ég er langt frá því að vera vinstri maður en ég er bara að nota þeirra orðfæri. Nákvæmlega þannig hefðu þeir viljað leggja þetta út. Er það ekki svo, virðulegur forseti?

Ég lít á verkefnið og mér finnst vera samhljómur — það kemur í ljós hversu mikil samstaðan verður þegar á hólminn er komið — um að fara í hagræðingu. Við ætlum að leita leiða til að spara til að halda uppi þjónustu. Mér finnst margir hafa talað þannig og nú mun reyna á.

Við í hagræðingarhópnum höfum verið að fara yfir ýmsa hluti í sumar og við höfum fullt af hugmyndum sem gætu nýst og væri mikilvægt að ræða. Ég tel mikilvægt að leggja hugmyndirnar fram. En eru þær allar skotheldar? Nei. Það er bara ekki þannig. En það gerist ekkert ef við ræðum ekki hlutina, það gerist ekkert ef við þorum ekki að fara yfir þá.

Ef við skoðum síðustu fjögur ár, ef við skoðum skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og ef við skoðum úttektir sem við fáum hér í þinginu um sparnaðinn, þá hefur hann fyrst og fremst verið í fjárfestingunni. Ef við skoðum hagrænu skiptinguna hafa útgjöldin aðallega vaxið í Atvinnuleysistryggingasjóð, hafa aukist um 346%. Þetta eru blóðpeningar. Ekki að við viljum ekki gera vel við það fólk sem er svo ólánssamt að missa vinnuna. En stóra málið er að við viljum að það hafi tækifæri til að starfa og skapa verðmæti. Þess vegna er sorglegt að okkur hafi ekki tekist að gera það á undanförnum árum. Aukningin hefur verið í vaxtabótum og á jöfnun og á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða ef við lítum á hlutfallstölur. En stóri sparnaðurinn, bæði hlutfallslega og í tölunum, er fyrst og fremst í viðhaldi og stofnkostnaði.

Virðulegi forseti. Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir að á sama tíma og ársverkum hafi fækkað um 17 þúsund á hinum almenna markaði hafi opinberum starfsmönnum fjölgað um 200. Þessu er hins vegar skipt ójafnt niður og ekki leikur vafi á því að sú einstaka stofnun sem hefur orðið fyrir mestri fækkun starfsmanna er Landspítalinn en á síðustu fjórum árum hefur fækkunin þar verið um 350 á sama tíma og jafnvel er um að ræða aukningu á öðrum heilbrigðisstofnunum.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki nóg að setja fjármuni í hlutina, ég tel að við verðum að fara í alvörustefnumótun í hverjum málaflokki fyrir sig ef við ætlum að ná árangri. Mér finnst augljóst að hér eru tækifæri til að spara, stundum mikið, stundum lítið, en lítill sparnaður skiptir líka máli. Mér finnst fullkomlega fráleitt, svo að lítið dæmi sé tekið, að vera með fjölmiðlanefnd, það er algjörlega út í hött. Við vorum hér með útvarpsréttarnefnd, hún kostaði miklu minna. Fjölmiðlanefnd kostar 40 milljónir á ári. Útvarpsréttarnefndin kostaði 13 eða 17 milljónir. Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með fjölmiðlalögunum sem kemur meðal annars fram í því að nefndin sendir erindi til einyrkja sem eru með vefsíður og biður þá um að aðskilja ritstjórnarlegt sjálfstæði og afskipti eigenda — sem er alveg ótrúlega erfitt ef það er bara eigandinn sem vinnur og sér um að skrifa og safna auglýsingum og gera alla hluti. Það er fullkomlega ómögulegt. Auðvitað gæti einhver sagt að þetta væri ekki almenna reglan en aðalatriðið er að þegar við ætlum að forgangsraða, segja hvað við viljum hafa og hvers við getum verið án, þá getum við verið án fjölmiðlanefndar.

Bankasýsla ríkisins er annað mál líka. Við þurfum ekki á að halda stofnun sem kostar nærri 100 milljónir kr. til að halda utan um eignarhlut okkar í Landsbankanum. Lagt var af stað með hana til að hugsa um alla eignarhlutana og þá var gert ráð fyrir því að ríkið mundi eiga Arion banka og Íslandsbanka líka og er augljóst að við getum lagt þá stofnun niður strax.

Menn tala hér um fjárfestingaráætlunina sem ríkisstjórnin hafi að miklu leyti tekið niður. Ég held því miður að þar hafi menn ekki vandað nóg til verka og svæsnasta dæmið sem ég hef séð er flutningur Náttúruminjasafnsins í Perluna. Sem betur fer er leigusamningurinn sem þar liggur undir háður samþykki þingsins. Ég mun leggja til að þingið samþykki ekki þann samning. Áætlanir voru uppi um að ríkið mundi borga 80 milljónir kr. á ári í 15 ár, óuppsegjanlegur samningur, og það segir sig sjálft að miklu ódýrara hefði verið fyrir ríkið að byggja hús ef svo hefði borið undir en að auki þurfti ríkið að fjárfesta fyrir 500 millj. kr. til að koma sýningunni upp og rekstrarkostnaðurinn hefði verið 20–30 milljónir. Þarna eru margir milljarðar í eitthvað sem við getum án nokkurs vafa verið án. Ég skil ekki hvernig nokkrum manni datt í hug að fara út í þetta þegar við horfum upp á niðurskurð á þeim sviðum sem við erum öll sammála um að við viljum halda uppi þjónustunni á.

Ég sé að forustumenn aldraðra og öryrkja hafa bent á að hér sé margt inni sem þau hafa verið að bíða eftir enda var leikurinn til þess gerður. Við erum að snúa við stefnu skattahækkana og fara að lækka skatta á almenning. Sumir segja: Heyrðu, þetta skiptir svo litlu máli, þetta er svo lítið. Hvað er það fólk að segja? Eigum við ekki að lækka skatta á almenning? Ég hef tekið eftir því að sumir forustumenn launþega, sem gæta hagsmuna þess fólks, tala jafnvel með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Við munum ekki geta gert allt í einu og ég er sammála því að við þyrftum að ganga lengra í skattalækkunum. En eigum við að sleppa því ef við getum ekki gert nógu mikið strax? Ég hvet fólk til að hugsa það og sérstaklega þá aðila sem eiga að halda utan um hagsmuni almennings.