143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og margt ágætt sem þar kom fram. En ég verð eiginlega að spyrja hv. þingmann um eitt því ég held að það skipti svolitlu máli hvernig menn túlka lagasetningu á þinginu. Nú er það þannig að þegar stjórnmálamenn segja að eitthvað sé tímabundið, lögbinda að það sé tímabundið, þá held ég að fólk sé almennt á því að það sé tímabundið. Og ég held að það skipti miklu máli að fá það frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni hvort tímabundið sé ekki bara tímabundið.

Hv. þingmaður talaði hér um auðlegðarskattinn. Það var ekki aðeins svo að hann væri tímabundinn heldur sagði hæstv. fyrrverandi ráðherra mjög skýrt, virðulegi forseti, að hann yrði ekki framlengdur. Ég held að ef einhver segir að eitthvað sé ekki framlengt þá muni allir skilja það þannig að það sé ekki framlengt.

Ég er því með tvær spurningar. Ef það stendur í lögum að eitthvað sé tímabundið lítur hv. þingmaður þá á það þannig að svo sé ekki? Og ef einhver stjórnmálamaður og ráðherra segir að skattur verði ekki framlengdur þýðir það þá eitthvað annað?

Svo vil ég líka, virðulegi forseti, vegna þess að hv. þingmaður þekkir nú heilbrigðismálin mjög vel, heyra frá honum um sameiningar. Sums staðar á landinu, ég held með prýðilegum árangri almennt, hafa heilbrigðisstofnanir verið sameinaðar til þess að nýta fjármunina betur og halda uppi þjónustunni. Heyrði ég rétt, er hv. þingmaður á móti sameiningum heilbrigðisstofnana?