143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að fyrir fólk sem fylgist með þessu og hefur kannski fundist skilaboðin frá stjórnmálamönnum vera óskýr verði þau að minnsta kosti ekki skýrari með þessu. Ég hef staðið í þeirri meiningu að tímabundið þýði tímabundið. Auðvitað geta menn tekið ákvarðanir um eitthvað annað, en ég spurði hv. þingmann vegna þess að hæstv. ráðherra í hans flokki sagði skýrt að viðkomandi skattur yrði ekki framlengdur. Það var ekki bara að það væri í lögunum, hann sagði það líka og mjög skýrt. Ég get lesið það upp fyrir hv. þingmann, ef hann vill, en hæstv. fyrrverandi ráðherra segir í viðtali, með leyfi forseta:

„Ég er ánægð með þessi þrjú tekjuskattsþrep. Það eru hins vegar ákveðin vandamál með auðlegðarskattinn. Hann er þó tímabundinn og ég mun leggja áherslu á að endurnýja hann ekki.“

Mér finnst þetta vera mjög skýrt. Finnst einhverjum þetta vera óskýrt? Ég bara spyr.

Varðandi sameiningar þá eru það heilbrigðisstofnanir sem eru sameinaðar. Það er á Austurlandi, á Suðurlandi og á Vesturlandi. Alls staðar er um miklar vegalengdir að fara. Hólmavík og Akranes eru kannski ekki alveg hlið við hlið eða Hvammstangi og Akranes ef út í það er farið. Það er erfitt að fara um Austfirði á vetrum. Það sem menn hafa náð hagræðingu í við sameiningu er margt sem hv. þingmaður þekkir mjög vel, t.d. í bakvinnslu. Menn ná hagræðingu í ýmsu öðru þó að miklar vegalengdir séu á milli.

Ef hv. þingmaður trúir því að ekki sé skynsamlegt að hafa þessar stofnanir eins og þær eru á þessum svæðum hefði ég talið að hann hefði átt að gera eitthvað í því þegar hann var hæstv. heilbrigðisráðherra og velferðarráðherra. En það er ekkert nýtt að við séum að sameina stofnanir yfir langan veg. Það skiptir máli að hv. þingmaður tali skýrt um það hvort hann sé fylgjandi sameiningum eða ekki.

Ef hann er ekki fylgjandi þeim er næsta spurning þessi: Af hverju gerði hann þá ekkert til þess að sundra þeim?