143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem er tímabundið, ég held að við getum talað okkur heita um það endalaust. Ég ætla að vona að þessi ríkisstjórn verði tímabundin. En þegar menn fela sig á bak við slíkt orðalag og þeir þurfi þar með ekki að taka afstöðu, þá eru það ein rök. Að segja að það sé vegna þess að Samfylkingin — það er út af fyrir sig mjög gott ef við fáum að stjórna þessari ríkisstjórn — tók afstöðu í einhverju máli, einn einstakur þingmaður … (GÞÞ: Einn einstakur þingmaður!) Var það ekki þannig, var það ekki blaðagrein sem hv. þingmaður vitnaði í? (GÞÞ: Ráðherra.) Já, fyrirgefðu, hv. þingmaður var ráðherra á þeim tíma. En eru það þá lög?

Eru það þá lög núna þegar hv. formaður fjárlaganefndar er búinn að gefa yfirlýsingar um 50 milljarða aukningu, get ég þá treyst á að það gangi eftir? 12–14 milljarðar í heilbrigðisstofnanir? (GÞÞ: Var þetta ekki stefna ríkisstjórnarinnar?)Jú, en ég meina …(Gripið fram í.) Nei, það var alls ekki hjá þér, hv. þingmaður. Ef þetta eru rökin þá er þakkarvert að við getum komið aftur með góðar tillögur handa ykkur í sambandi við hvað á að gera, enda færði ég rök fyrir því í ræðu minni að stór hluti af fjárlögunum er þannig að stjórnarmeirihlutinn hefur þegið góð ráð frá okkur eða ekki þorað að draga hluti til baka, nema þið dróguð til baka fæðingarorlofið. Hv. þingmenn kveinkuðu sér undan því í sumar að þurfa að standa við það sem þið höfðuð lofað. En sem betur fer dróguð þið það ekki til baka og tek ég þá gjaldfrjálsar tannlækningar sem dæmi.

Varðandi sameiningar þá hef ég sagt: Sameining er ekki til vegna sameiningarinnar. Maður byrjar ekki á að gefa tölur um það hver hagræðingin er, menn byrja á því að sameina og draga síðan frá þegar þeir eru búnir að finna út hver hagræðingin verður í framhaldi af því. Þetta er það sem þarf að vinna.

Það er með ólíkindum að hlusta á hv. þingmann, fyrrverandi ráðherra, hafandi gagnrýnt okkur fyrir blóðugan niðurskurð, eins og margir af þeim sem eru í hagræðingarhópnum. Ég viðurkenni að við fórum í blóðugan niðurskurð. En við sögðum: Það er komið nóg. En svo kemur nýi (Forseti hringir.) stjórnarmeirihlutinn og segir: Nei, þetta er sko aldeilis ekki nóg, þið eigið eftir að sjá meira, við erum búin að finna matarholuna. Það eru skattar á sjúklinga (Forseti hringir.) og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.