143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:39]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rengja hæstv. ráðherra fjármála og efnahagsmála, en þetta kemur fram í frumvarpi sem hér er lagt fram á þskj. 3, 3. máli, þar sem þess er sérstaklega getið af hálfu fjármálaráðuneytis að skerðingin sé 0,3%. Ég er rólegri ef það er rétt að kaupmátturinn verði þrátt fyrir það 0,3% en það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu.

Ég nefndi áðan að sá sem hér stendur og hæstv. ráðherra voru saman á fjármálaráðstefnu þar sem var rætt um samskipti þessara tveggja stjórnsýslustiga í landinu. Þar var einmitt rætt um tekjustofna og mig langar aðeins að heyra viðhorf ráðherrans þannig að það komi fram í þinginu. Hér hafa samfylkingarmenn flutt um það tillögu að hluti af veiðigjaldinu, allt að 25%, verði látinn renna til sveitarfélaga. Mér heyrðist hæstv. ráðherra slá þetta algjörlega af og telja þetta útilokað. Ég ætla rétt að vona að hann leyfi okkur að ræða þetta í þinginu. Þetta mál kemur inn á næstu dögum. Mig langar aðeins að fá að heyra frá hæstv. ráðherra viðhorfið til, ef ég má leyfa mér að spyrja til baka í andsvari, þessarar hugmyndar vegna þess að ég held að það skipti mjög miklu máli að senda sveitarfélögunum þau skilaboð að við ætlum að færa þangað verkefni.

Þarna kom auðvitað líka fram óánægja með að hér væru lögð fram ýmis byggðatengd atriði eins og að lækka framlag til húshitunarkostnaðar. Það er líka lækkað í sóknaráætlun sem var eiginlega aðferð til að færa ákvörðunartökuna út úr þinginu til nærsamfélagsins. Sá þáttur er skorinn illilega niður í frumvarpinu og ber að harma það. Það hallar mjög á landsbyggðina í þessu frumvarpi.

Ég biðst velvirðingar á að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra til baka.