143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Veiðigjaldið er í sjálfu sér í heildarendurskoðun í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, þ.e. hvernig við breytum lögum um stjórn fiskveiða og síðan í tengslum við það veiðigjaldinu, hvort við getum náð samstöðu um að færa okkur yfir í samninga og taka gjald vegna þeirra. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta allt saman mjög vel. Í því samhengi höfum við ekki horft til þess að deila tekjum af tekjustofnunum með sveitarfélögunum sérstaklega þannig að það sé bara sagt hreint út. Hins vegar munu sveitarfélögin njóta góðs af innheimtu veiðigjaldsins með því að heildartekjur af skattstofnunum vaxa með gjaldinu, þau njóta síðan góðs af því meðal annars í gegnum jöfnunarsjóðinn.

Þetta gildir alveg sérstaklega um bankaskattinn sem fylgir þessu fjárlagafrumvarpi. Það gildir einnig um lækkun tryggingagjalds sem sveitarfélögin njóta góðs af í þessu fjárlagafrumvarpi þannig að það er eitt og annað í frumvarpinu sem verkar mjög jákvætt fyrir sveitarfélögin. Það verður að taka með í þessa umræðu.

Síðan er það með áhrifin af frumvörpum sem fylgja fjárlagafrumvarpinu, það er alveg rétt að hugsanlega er það ekki tekið nægilega vel saman á einn stað. Áhrif þeirra á kaupmátt ráðstöfunartekna birtast í hverju og einu frumvarpi og heildaráhrifin eru þau sem ég hef hér farið yfir.