143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst sumt ekki alveg skýrt hjá honum og þess vegna vildi ég aðeins spyrja hann út í það. Í fyrsta lagi fór hv. þingmaður yfir það að það hefði verið skoðað að sleppa undanþágunni varðandi þrotabúin 2009 en það ekki talið mögulegt. Þá kannski fyrst: Var það skoðað seinna, 2010, 2011 eða 2012?

Þó að það væri ekki sagt beint var atferlið þannig, ég er búinn að fylgjast með hv. þingmanni nokkuð lengi, eins og hann væri ekkert sáttur við að fara þessa leið og ég spyr: Er hv. þingmaður sammála því að taka þessa undanþágu fyrir þrotabúin og hækka skattinn? Eða er hann það ekki? Það væri áhugavert að heyra það.

Sömuleiðis varðandi skuldabréfið við Seðlabankann held ég að það væri áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður sé sáttur við að fara þá leið. Hann fór ágætlega yfir þetta sem hæstv. ráðherra hefur gert áður, það hafa ekki verið nein leyndarmál í þessu, þvert á móti, en er hann fylgjandi þessu eða ekki?

Hv. þingmaður kannski leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér en ég man ekki betur en að menn hafi talað um að það væri nokkurn veginn búið að ná hallalausum fjárlögum. Nú sjáum við hins vegar að niðurstaðan er önnur. Það væri ágætt að vita hvort hv. þingmaður hafi áttað sig á því að þetta væri þróunin og hvort hann hafi upplýst um það. Ég man bara ekki eftir því. Hv. fyrrverandi þingmaður Ásbjörn Óttarsson lagði á þetta áherslu í umræðu um fjárlögin fyrir ári en lítið var á hann hlustað. Það væri áhugavert að fá að vita hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi séð á einhverjum tímapunkti að áætlanir mundu ekki ganga eftir og hvort hann hafi upplýst almenning um það.