143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni veit ég til þess, ég rifjaði það líka upp með fólki sem með mér var á þeim tíma, að það var lauslega skoðað á sínum tíma hvort hægt væri að taka þrotabúin inn undir bankaskattinn. Það var lagt til hliðar á þeim tíma, undir lok árs 2009 eða á árinu 2010, sem algjörlega óframkvæmanlegt og óraunhæft á þeim tímapunkti. Það var talið að það væri þó nokkuð í það að málefni búanna skýrðust þannig að þetta kæmi til greina.

Þannig var það og kunnugir menn sögðu mér einmitt núna á dögunum að það væri kannski fyrst núna, á síðari hluta síðasta árs, sem þessi mynd hefði verið að skýrast þannig og kæruferlum og dómsmálum hefði undið þannig fram að það væri komin nokkuð heildstæð og stöðug mynd á kröfurnar. Þær eru hér andlagið. Skuldir þrotabúanna, sem sagt kröfurnar, eru andlagið með sama hætti og útlánin eru það í starfandi fjármálafyrirtækjum. Þess vegna verður sú hlið að liggja nokkuð skýrt fyrir.

En mér finnst þetta mjög áhugavert eins og ég sagði hér, ég skal endurtaka það, og ef þetta reynist tæknilega og lagalega fær leið er ég til í það.

Varðandi Seðlabankann og samskipti hans við ríkissjóð kemur að sjálfsögðu til greina, og það var rætt í minni tíð og í tíð næsta forvera míns, að endurskoða að einhverju leyti og spegla til dæmis á milli ríkisins og Seðlabankans vaxtamuninn milli erlendu gjaldeyrislánanna sem ríkið tekur og leggur inn í forðann og Seðlabankinn ávaxtar síðan og fær að vísu lægri vexti af en ríkið borgar muninn. Ég geri ekki athugasemdir við það að þessi samskipti ríkis og Seðlabankans séu eitthvað skoðuð en auðvitað er það úr einum vasa ríkisins í annan. Ef afkoma Seðlabankans versnar um 10 milljarða með því að afkoma ríkisins batni um 10 milljarða greiðir Seðlabankinn eiganda sínum, ríkinu, síður arð o.s.frv. Þetta er í raun og veru ekki sú lausn sem þetta lítur út fyrir að vera bókhaldslega „i det lange løb“ eins og Danskurinn mundi segja.

Já, það var stefnt að litlum halla á fjárlögum 2013. Það var aldrei raunhæft markmið að hafa þau hallalaus og það var ákveðið strax 2011. Staðan hefur þyngst, það er rétt, m.a. vegna þess að hagvaxtarhorfur hafa daprast og þess vegna mátti búast við því að hallinn ykist eitthvað en hann verður samt væntanlega ekki meiri en um 1,5% af landsframleiðslu og það er langbesta útkoma sem við höfum séð síðan 2007.