143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við það þegar hv. þingmaður tekur saman meginþættina sem tryggja það að hér er hægt að leggja fram hallalaust fjárlagafrumvarp, að því er algjörlega sleppt að nefna aðhaldsaðgerðir sem eru þó í hinu orðinu sérstaklega mörgum stjórnarandstæðingum aðalatriði þessa máls, hvar skorið er niður. En staðreynd málsins er sú að það var auðvitað algjörlega óumflýjanlegt í ljósi þess mikla halla sem er á ríkissjóði og stefnir í að verði á yfirstandandi ári.

Þá nefna menn að ný ríkisstjórn hafi kastað frá sér ýmsum tekjumöguleikum. Alltaf er klifað á veiðigjaldinu og virðisaukaskatturinn á ferðaþjónustuna er nefndur. En jafnvel þótt menn taki þessa tvo þætti og leggi þá saman þá skýra þeir ekki nema um 10%, í besta falli 15% af tekjuskortinum á yfirstandandi ári eða öllu heldur af hallanum. Þá er enn eftir óútskýrt hvers vegna er 27 milljarða gat á ríkissjóði fyrir utan þessa tvo þætti. Þarna erum við að tala um 10–15% vandans en menn veigra sér við að tala um 85% hans.

Víða var komið við. Mér finnst það vera almennt einkenni á umræðu stjórnarandstæðinga, fyrrverandi stjórnarflokka, að þeir virðast ekki sjá aðrar leiðir til þess að bæta stöðu ríkissjóðs en að hækka skatta og finna fleiri skattstofna, en þeir sjá ekki á sama tíma að eina leiðin er að fjölga störfum og auka umsvif í hagkerfinu. Það er það sem við erum að glíma við. Störfum hefur ekki fjölgað á undanförnum árum þannig að við vinnum til baka þau umsvif sem voru hér áður en bankarnir féllu. Það er eitt meginverkefni nýrrar ríkisstjórnar að tryggja að störfum fjölgi að nýju.