143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þau margvíslegu litlu og stóru málefni sem hér eru nefnd til sögunnar og fá ekki framgang í nýju fjárlagafrumvarpi eru flest hver hluti af fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem var saumuð inn í fjárlögin fyrir tæpu ári síðan, nokkrum mánuðum fyrir kosningar, og fólu í sér að stórauka framlög í hina ýmsu sjóði, hvort sem það heitir Tækniþróunarsjóður eða nýsköpunar- og rannsóknarsjóðir af ýmsum toga, og svo voru búnar til nýjar áætlanir, 400 milljónir í sóknaráætlun sem átti að verða 1.200 milljónir á árunum 2014 og 2015. En þegar upp var staðið kom í ljós að tekjuöflunin sem átti að standa undir þessu gríðarlega mikla prógrammi, þessari stóru áætlun, brást, hún var ekki til staðar. Þess vegna var ekkert annað að gera. En við hlífum þar sem við teljum að hafi verið viðleitni til þess að styðja góð málefni, (Gripið fram í: Góð málefni?) ég get tekið Tækniþróunarsjóð sem dæmi, þar er dregið úr framlaginu samanborið við árið 2013, en ef við horfum lengra aftur í tímann þá sjá allir að á árinu 2014 fær Tækniþróunarsjóður hærri framlög en hann hefur lengst af verið með. Hann var til dæmis með um 600 milljónir á árinu 2007, ef ég man rétt.

Ég gæti haldið áfram að telja upp dæmin. Það er ekki gott í þessu sambandi að horfa til ársins 2013 sem viðmiðunarárs þar sem ríkissjóður var rekinn með 31 milljarðs halla og á sama tíma höfðu framlög í ýmsa svona þætti verið stóraukin.

Síðan hefur aðeins verið rætt hér um fæðingarorlofið. Já, það er hætt við að lengja það enda tel ég augljóst bara miðað við umræðuna sem á sér stað hér í dag að við erum ekki í færum núna til þess að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði. Við erum bara einfaldlega ekki í færum til þess. Fyrri ríkisstjórn hafði skorið fæðingarorlofið niður um 22%, í kringum 2,5 milljarða. Uppsafnaðar aðhaldsaðgerðir námu þeirri upphæð. Við teljum rétt að byrja að snúa við af þeirri braut með því að hækka mánaðarlega framlagið.