143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vék hér í upphafi að fjárlögum sem sá sem hér stendur studdi ekki á síðasta kjörtímabili. Það var m.a. vegna þess að við horfðum upp á að fjármagn var veitt til Evrópusambandsumsóknar, hundruð milljóna og milljarðar voru veittir til Evrópusambandsumsóknar á meðan skorið var niður í heilbrigðiskerfinu eftir að sitjandi ríkisstjórn hafði ítrekað bognað í hnjánum gagnvart erlendum kröfuhöfum í Icesave-málinu. Ég fór vel yfir það í ræðu minni áðan hvernig bankaskatturinn er til vitnis um að hægt er að treysta forustu þessarar ríkisstjórnar í þeim málum.

Almennt varðandi efnahagshorfur og hagvaxtartölur kom ég inn á það í ræðu minni að ég teldi að við þyrftum að bíða eftir hagvaxtarspánni sem kæmi í nóvember. Ég sagði að það væri full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að sú hagvaxtarspá yrði okkur kannski ekki jafn hliðholl og við vildum vegna þess að við værum enn þá að ná að koma hagkerfinu í gang eftir stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar.

Af því að hv. þingmaður notar orðið „óvissu“ þá er það akkúrat það orð sem notað var til að lýsa síðustu ríkisstjórn varðandi atvinnumál. Í lok síðasta kjörtímabils fór ég reglulega yfir það og gerði m.a. samanburð á því hvernig þróunin hefði verið varðandi umgjörð í fyrirtækjarekstri miðað við öll nágrannalönd okkar. Þar hafði Ísland fallið varðandi alla umgjörð gagnvart fyrirtækjum, þ.e. umgjörð um hvernig er að reka fyrirtæki hér, hvernig er að sækja fram með fyrirtæki, fjárfestingar o.s.frv. á Íslandi. Ísland féll á öllum sviðum nema í menntamálum, tölvuþekkingu og öðru slíku. Ísland féll hvað varðar þá umgjörð sem stjórnvöld veita fyrirtækjum, og gerði það árin 2010, 2011, 2012, á hverju einasta ári. Það tekur meira en sex mánuði að byggja það upp á nýjan leik, því miður.