143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er ánægður með fjárlagafrumvarpið og þá væntanlega ánægður nú með niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, það var hann ekki haustið 2010.

Hv. þingmaður kvartaði eiginlega undan því að fyrri ríkisstjórn hefði ekki verið nógu dugleg að skattleggja bankakerfið eða fjármálastofnanir. Samt er það þannig að við komum á bankaskatti 2010 og við komum á fjársýsluskatti 2011 og eitthvað kvörtuðu og kveinuðu fjármálastofnanirnar undan því. Þær hafa tekið á sig verulega aukinn kostnað vegna fjármálaeftirlitsins sem hefur verið umfangsmikið á þessum árum. Þær greiða kostnað af umboðsmanni skuldara og þær greiddu í tvígang 2,3 milljarða í sérstakar vaxtaniðurgreiðslur árin 2011 og 2012. Ýmsum þótti nú nokkuð vel að gert með þeim byrðum sem lagðar voru á fjármálafyrirtækin. Ef núverandi ríkisstjórn metur það svo að hægt sé að auka þetta enn umtalsvert með hækkun bankaskatts, og þar á meðal t.d. álögur á sparisjóði, þá er það áhugavert og við sjáum til.

Frú forseti. Hitt ætla ég að frábiðja mér, ómagaorð af því tagi frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni að fyrri ríkisstjórn hafi stundað þjónkun við erlenda kröfuhafa allt síðastliðið kjörtímabil. Þetta eru ómagaorð, þetta er ómaklegt, þetta er órökstutt og þetta er rangt. Það er þannig að það var einmitt árvekni fyrri ríkisstjórnar og Seðlabankans að þakka að gripið var til þeirra ráðstafana sem þurfti til að tryggja hagsmuni Íslands í samskiptum við erlenda kröfuhafa. Það var ég sem flutti frumvarp í mars 2012 um að taka eignir gömlu þrotabúanna inn fyrir gjaldeyrishöftin og það er vegna þess sem við höfum tök á þeim málum. Og það er í skjóli þess sem framsókn gat gert út á þetta mál í kosningabaráttunni, að fyrri ríkisstjórn hafði passað upp á hagsmuni Íslands. Þetta er sagan eins og hún er rétt. Framsóknarmenn sátu hjá (Forseti hringir.) og sjálfstæðismenn voru sumir á móti þegar þetta tímamótamál fór í gegn.