143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að taka undir hérna með þeim sem hafa verið að veita hv. þingmanni andsvör. Ég var ekki mikið inni á þingi sl. fjögur ár en kom þó af og til og ég verð að segja að afstaða þingmannsins varðandi hin ýmsu mál er lúta að þessu fjárlagafrumvarpi kemur mér eins og öðrum svolítið spánskt fyrir sjónir.

Mig langar að byrja á því að velta hér upp með hv. þingmanni niðurgreiðslum á húshitun sem hann talaði mikið fyrir á síðasta kjörtímabili. Þar sem ég var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga áðan var þetta mál m.a. nefnt og verið að stjaka svolítið við fjármálaráðherranum í því sambandi. Talið er að það vanti í kringum 550 milljónir til þess að rétta þetta af miðað við 2005 og var beðið um að fá að ræða við fjármálaráðherra um það hvernig mætti leiðrétta þessi mál. Þetta málefni var hv. þingmanni mjög hjartfólgið og mig langar að spyrja hvort hann sé sáttur við þá niðurstöðu sem kemur fram í þessu frumvarpi.

Eins langar mig að velta því upp sem kom hér fram í umræðunni. Augljóslega eru komnar einhverjar hugmyndir fram í hagræðingarhópnum sem ekki má deila, það er alla vega eitthvað á takteinunum því að hv. þingmaður er að gefa því undir fótinn að í fjárlaganefnd verði augljóslega breytingar sem ekki verði svo ýkja mikið mál að finna einhvern farveg. Mig langar svona í restina að velta því upp, af því að það hefur verið mikið talað hér um skuldir eða skuldavanda ríkissjóðs, að hv. þingmaður treysti sér ekki til þess að samþykkja fjárlög undanfarinna ára þrátt fyrir að þar væri verið að greiða niður og allt í áttina til betri vegar vegna þess að sótt var um aðild að ESB. Þá var allt annað látið líða fyrir það. Er það rétt skilið hjá mér?