143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er að skoða þessi fjárlög í fyrsta skipti og ég verð að viðurkenna að ég hefði gjarnan viljað fá lengri tíma til að lesa þau yfir áður en ég færi að tala hér í ræðustól. Trúlega hefði komið eitthvað gáfulegra upp úr mér en miðað við þessa stuttu yfirferð er samt margt sem vekur athygli mína.

Ég hélt einhvern veginn að stefna stjórnvalda til framtíðar mundi koma miklu betur fram í þessu plaggi, að við mundum sjá betur hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum til lengri tíma. Það á að reyna að ná tekjum af þrotabúum en þau verða varla skattlögð um alla framtíð og tilfærsla peninga á milli Seðlabanka og ríkissjóðs verður varla gerð á hverju ári. Þetta tvennt eru tekjur upp á rúma 20 milljarða á ári. Og hvað á að koma í staðinn fyrir þær árin 2016, 2017 og 2018 og í framtíðinni? Mér finnst stefnan varðandi tekjuöflun óljós og brothætt og mér finnst það sama eiga við um útgjaldahliðina. Flestir fjárlagaliðir hækka lítið, sumir hækka eitthvað og sums staðar er dregið verulega úr fjárframlögum eða hætt við verkefni. Og mér finnst þetta allt frekar tilviljunarkennt. Ég mundi vilja sjá útskýringar á þeirri hagræðingu sem er gerð núna og hvernig stjórnvöld hugsa sér að reka ríkið næstu fjögur árin. Í hverju er aðhaldið fólgið?

Ég gladdist nokkuð þegar ég var að lesa í gegnum þetta frumvarp þegar ég fann loksins setninguna: Í þessum kafla er fjallað um aðhaldsaðgerðir ráðuneyta. Síðan las ég kaflann og ég var engu nær. Jú, það er hætt við fjárfestingaráætlunina og við það eru margir fjárlagaliðir sem falla niður eða koma aldrei inn. Svo er eitthvað sem heitir „Sértækar aðhaldsráðstafanir“ og þær miða helst að því að draga úr nýframkvæmdum og eitthvað meira er þar undir sem ég hef ekki fundið útskýringar á. Síðan er þriðji liðurinn sem er kallaður „Veltutengdar aðhaldsráðstafanir“, og það eru sparnaðartillögur sem ráðuneytin og stofnanir þeirra þurfa að sæta, og það er þessi hefðbundni sparnaður.

Einnig segir í ritinu, með leyfi forseta:

„Á kjörtímabilinu verður unnið að aukinni framleiðni í opinbera geiranum með hagræðingaraðgerðum til að tryggja hámarksþjónustu fyrir takmarkað fjármagn.“

Í frumvarpinu er í raun bara talið upp hversu mikið hinn eða þessi liður lækkar en ekki hvernig eigi að hagræða, hvernig þjónustan eigi að breytast. Nú erum við í fjárlaganefnd mjög meðvituð um vanda margra stofnana og hversu mikil fjárþörfin er. Sumar stofnanir hafa ítrekað verið reknar með halla. Ástæðurnar geta verið jafn mismunandi og stofnanirnar eru margar. Hvernig á að tryggja að þessar stofnanir fari ekki fram úr fjárlögum á næsta ári? Margar stofnanir geta ekki hagrætt meira nema minnka starfsemi, segja upp fólki, og eiga það ekki að vera stjórnvöld sem ákveða hvaða þjónustu á að skera niður? Mér finnst eins og það sé bara verið að lengja í hengingarólinni og stjórnvöld séu að veigra sér við að taka erfiðar ákvarðanir. Ég hélt að við mundum sjá uppstokkun, pólitíska stefnumótun, ekki bara enn eitt frumvarpið þar sem einhverri hagræðingarkröfu er hent á stofnanir og þeim gert að hagræða bara svona einhvern veginn.

Ég tek sem dæmi að það er stefna stjórnvalda að auka verk- og tæknimenntun og allir flokkar eru í raun á þeirri línu, ég held að við séum öll sammála um þetta. Ef ég væri að reka skóla og væri gert að hagræða enn meira væri mjög freistandi að leggja niður dýrustu deildina. Það gæti þó verið sú námsbraut sem skilar verðmætasta starfsfólkinu, fólki sem fer beint út í þjóðfélagið í góð störf og skilar sköttum til samfélagsins. Það væri þjóðhagslega óhagkvæmt að leggja niður dýrasta námið, hvort sem er í framhaldsskóla eða háskóla, en það getur verið neyðarlending menntastofnunar sem er gert að hagræða ár eftir ár. Ef við ætlum að leggja áherslu á verknám þurfum við að leggja meiri peninga í verknám. Það er pólitísk stefnumótun og ég sé hana ekki í þessu frumvarpi.

Reyndar er eitthvað talað um að sameina stofnanir í frumvarpinu og þá má benda á þann möguleika að það er líka hægt að sameina stofnanir og skóla á höfuðborgarsvæðinu. Oft er það fjarlægðin sem gerir það að verkum úti á landi að stofnanir eru smáar í sniðum. Það eitt og sér þarf ekki að vera óhagkvæmt og ég hef fullan skilning á því að það þurfi að hagræða og fækka í yfirstjórn en það má sem sagt líka gera það í Reykjavík.

Þá sé ég að fjárveitingar til RÚV halda sér nokkuð og ég vænti þess að svæðisstöðvarnar úti á landi fái aftur meira vægi. Fréttaflutningur og dagskrárgerð hefur hægt og bítandi sogast suður. Það kom berlega í ljós í sumar þegar stanslaust dundi í fjölmiðlum að Íslendingar væru orðnir langþreyttir á veðrinu. Víða úti á landi kannaðist fólk ekkert við þetta leiðindasumar en þetta er ein birtingarmynd þess þegar fréttaflutningur og fjölmiðlaumræðan einskorðast að miklu leyti við suðvesturhornið. Þessu þarf að breyta. Þá sé ég ekki uppbyggilega byggðastefnu í frumvarpinu, þvert á móti.

Ég ætla annars ekki að fara að rýna mikið í einstaka liði. Staðan er alvarleg og við erum öll sammála um og skiljum mikilvægi þess að skila fjárlögum næsta árs hallalausum og ekki bara fjárlögum heldur verði það líka útkoman þegar upp er staðið. Mér fannst óábyrgt af stjórnarflokkunum að lofa auknum útgjöldum fyrir kosningar; Framsóknarflokkurinn með skuldaniðurfellingarhugmyndir og Sjálfstæðisflokkurinn með skattalækkunarhugmyndir. Það hljómaði eins og staðan væri bara nokkuð góð og mikið svigrúm hjá ríkissjóði.

Þá talaði síðasta ríkisstjórn kannski helst til fjálglega um það hversu mikill árangur hefði náðst og landið væri að rísa. Ekki misskilja mig, ég ber virðingu fyrir þeirri gríðarlegu vinnu sem síðasta ríkisstjórn lagði á sig til að hreinsa til eftir hrunið. Það var ekki auðvelt verk og það var vanþakklátt. En landið var ekkert farið að rísa hér 2012, það var engin stórkostleg ástæða til bjartsýni. Ég held að það sé betra að tala um hlutina eins og þeir eru. Við erum gríðarlega skuldsett, við borgum allt of há vaxtagjöld og rekstur ríkisins er í það miklum járnum að grunnþjónusta er farin að líða fyrir það.

Ég velti líka fyrir mér hvort krafan um skattalækkun sem nú er boðuð sé raunverulega fyrir hendi. Þá er ég að tala um 0,8 prósentustiga lækkun á tekjuskatti. Ég upplifi að fólk vilji frekar standa vörð um velferðarkerfið. Þessi skattalækkun nemur um 5 milljörðum á ári, fjárhæð sem ríkið missir þá af tekjuhliðinni. Sú upphæð gæti á kjörtímabilinu staðið undir fyrsta áfanga að nýjum Landspítala svo að dæmi sé tekið.

Það er mikil áskorun að ná hallalausum fjárlögum og það er til mikils að vinna. Ég hefði viljað sjá aðrar áherslur, sterkari framtíðarsýn, skýrari stefnu. Ég veit að ríkisstjórnin er ný en þeir flokkar sem hana mynda eru gamlir og eiga alveg að vita fyrir hvað þeir standa. Þeir þekkja rekstur ríkisins út og inn vænti ég. Það kom mér á óvart hvað þetta er hefðbundið og fyrirsjáanlegt fjárlagafrumvarp, hætt við allt sem fyrri ríkisstjórn gerði, skattar lækkaðir hipsum haps. Fyrsta málið í vor, þegar ákveðið var að hækka ekki virðisaukaskatt á gistingu, er að mínu mati fullkomlega óskiljanleg ákvörðun og ýtir undir þá tilfinningu sem ég hef að þessi stjórn viti ekki alveg hvert hún stefnir.

Það bíður okkar mikil vinna fram að jólum við þetta frumvarp og vonandi munum við fá miklu betri mynd af því hvert stjórnvöld eru að fara og vonandi getum við öll orðið ásátt um að stefna í sömu áttu. Við viljum öll reka ríkið með afgangi, tryggja góða og skilvirka þjónustu hins opinbera og forgangsraða í þágu velferðar.