143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:05]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hún er orðin nokkuð efnismikil og ítarleg 1. umr. um framlagt fjárlagafrumvarp, sem ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að leggja hér fram — og undirbúninginn á því eins og það birtist okkur alþingismönnum.

Það er rétt að gera sér grein fyrir upphafsstöðunni, því sem undirbúningur fjárlagafrumvarpsins byggist á, en á þessu ári virtist stefna í 30 milljarða halla á ríkissjóði. Það er kannski fyrsta hindrunin sem þurfti að yfirstíga við undirbúning og gerð þess fjárlagafrumvarps sem nú liggur fyrir. Áframhaldandi hallarekstur og skuldasöfnun er fyrst og fremst alvarleg fyrir framtíð grunnþjónustunnar sem við erum sammála um að reka í landinu. Ekkert ógnar grunnþjónustu meira en áframhaldandi halli á ríkissjóði og því er það forgangsmál að stöðva þann hallarekstur og hætta að safna skuldum.

Í öðru lagi er rétt að gera sér grein fyrir því að ábyrg meðferð fjármuna hins opinbera, skattfjár almennings, leggur þær skyldur á herðar okkar að ganga af trúmennsku um það bú sem okkur er trúað fyrir. Við verðum að geta mætt hvar sem er og sagt: Við reyndum að gera okkar besta við ráðstöfun þeirra takmörkuðu fjármuna sem við höfðum. Auðvitað vilja margir vinna gott verk og nauðsynlegt en því miður verðum við að forgangsraða og það er oft sárt. Það er erfitt að skera niður, það hafa allir fjármálaráðherrar reynt og það hafa allir stjórnarmeirihlutar reynt sem í því hafa staðið á undanförnum árum og oft þarf kjark til að takast á við viðkvæman og erfiðan niðurskurð.

Ég tel að frumvarpið feli samt í sér mörg jákvæð skilaboð þrátt fyrir þá erfiðleika sem þurfti að yfirstíga við undirbúning þess. Það kom glögglega fram í ræðu hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur hér áðan hvar meginstefna fjárlagafrumvarpsins liggur, til hvers hún muni leiða og til hvaða góðu verkefna núverandi ríkisstjórn horfir.

Frumvarpið gefur líka fyrirheit um að endurskoða allt skattkerfið, vörugjöld og virðisaukaskatt, og ég tek undir það að það er afar nauðsynlegt. Bakgrunnur lagasetningar þarf ætíð að vera skýr og ljós. Lagasetningin þarf að vera gagnsæ og það er réttur þeirra sem þurfa að búa við lögin að þeir geti horft á lagasetninguna og horft á lögin sem gilda á hverjum tíma og áttað sig á stöðu sinni gagnvart þeirri löggjöf. Hæstv. fjármálaráðherra kom ágætlega að því í framsögu sinni hér fyrr í dag að skattkerfið sé orðið flókið og þurfi endurskoðunar við þannig að það verði gagnsætt á nýjan leik og ég vona að um það geti náðst víðtæk og góð sátt.

Ég held að endurskoðun virðisaukaskattskerfisins eigi ekki á nokkurn hátt að þurfa að vera íþyngjandi í vöruverði eða leiða til minnkandi kaupmáttar. Þar getur endurskoðun vörugjaldafrumskógarins og ýmissa annarra gjalda komið á móti, gjalda sem leggjast á vöruverð. Ég hvet eindregið til þess að í það verkefni verði ráðist. Eins og hæstv. fjármálaráðherra ítrekaði í framsögu sinni með fjárlagafrumvarpinu hér fyrr í dag er hugmynd hans um breytingu á skattkerfinu ekki hugsuð til þess að verða að sérstakri tekjuöflunarleið ríkissjóðs sem íþyngir skattgreiðendum. Hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir kom líka vel inn á það þegar hún lýsti því yfir að margt mætti finna að fjárlagafrumvarpinu og það er vissulega rétt.

Ég hef ekki síður áhyggjur af grunninum sem frumvarpið byggir á, hvert horfir í efnahagsmálum okkar, hverjar verða forsendurnar. Ísinn er þunnur undir íslensku efnahagslífi og íslenskum ríkissjóði. Það er okkar í fjárlaganefnd að fara gaumgæfilega yfir frumvarpið, rýna það og hlusta á rök manna fyrir því sem breyta þarf, við þurfum að geta fært fyrir því gild og góð rök.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni orð hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur, 5. þm. Norðaust., sem hún lét falla í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gær en hún fjallaði um áhrif ríkisfjármála á byggðamál. Í fjárlagafrumvarpinu má lesa greinargerð um áhrif fjárlaga á kynjaða hagstjórn eða kynjaða fjárlagagerð. Hæstv. fjármálaráðherra boðaði það í framsöguræðu sinni í dag að hann mundi mæla fyrir nýju frumvarpi um fjárreiðulög ríkisins og ég held að í umræðunni um það frumvarp ættum við ekki síður að velta fyrir okkur hvernig við ættum að rýna fjárlagafrumvarp á hverjum tíma og áhrif þess á byggðarlög og byggðir.

Það er örugglega ekki einfalt verk en við þekkjum það allir alþingismenn, hvort sem við erum nýir eða gamlir, að niðurskurður á stofnunum á landsbyggðinni er óskaplega viðkvæm aðgerð þó að ekki sé um stórar fjárhæðir að tefla. Ég vil nefna tvö dæmi í því sambandi.

Námskostnaður eða framlög til námskostnaðar barna — mjög mikilvægur stuðningur við börn úr dreifbýli, getur í mörgum tilfellum verið algjört úrslitaatriði um hvort hægt er að senda börn til náms, hvort foreldrar einfaldlega treysti sér til þess fjárhagslega, því ekki búa allar byggðir svo vel að heimangengt sé í framhaldsskóla frá hverju heimili. En kannski er þetta líka orðið kerfi sem er barn síns tíma, kannski má endurskoða það frá grunni og ég ætla alls ekki að útiloka það.

Hitt málið er, og á því hefur verið tæpt hér í dag — og þó að það sé ekki stór upphæð í samhengi hlutanna, er það líka mjög viðkvæmt og líka mikið réttlætismál, sem er niðurgreiðsla á húshitunarkostnaði. Hér á fyrri þingum hafa legið fyrir þingmál um hvernig eigi að fjármagna niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og bæta aðstöðu íbúa í landinu í þeim efnum. Og hvort sem verður af breytingum til lækkunar á húshitunarkostnaði eins og boðað er í þessu fjárlagafrumvarpi eða ekki er það algjörlega ljóst í mínum huga, og ég veit að það gengur alveg þvert á flokka, að það kerfi sem við höfum búið við í þeim efnum — að ekki skuli takast að jafna húshitunarkostnað svo að gagnsætt og skynsamlegt sé — er okkur ekki til mikils sóma og þar þarf að mæla fyrir mikilli kerfisbreytingu.

Virðulegi forseti. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar áður en við göngum endanlega frá fjárlögum og greiðum um þau atkvæði og afgreiðum þau hér í þessum þingsal. Ég vil að endingu fagna áformum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að flytja frumvarp um breytingar á lögum um Verðmiðlunarsjóð búvöru og fóðursjóð sem koma til með að lækka umsvif ríkissjóðs í málaflokknum landbúnaði um tæpa 2 milljarða. Þetta er löngu tímabær breyting á lögum sem Samfylkingin hefur haldið í gíslingu allt frá árinu 2007. Þannig getur margt gott fæðst og í fjárlagafrumvarpinu eru mörg góð áform. En saman skulum við vinna að því að reyna að ná um það meiri og betri sátt en hefur kannski sýnst hér í dag. Það liggur fyrir eftir umræðurnar að heilbrigðismál eigi að njóta forgangs ef við sjáum færi á því að bæta í, ef við treystum okkur til þess, og ég tek undir það.