143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014 og ég get tekið undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni, það er virkilega þörf á því að rýna fjárlagafrumvarpið með landsbyggðargleraugum. Í raun ætti að gera það með fjárlagafrumvörp yfirleitt til samræmis við að þau eru rýnd gagnvart kynjum með kynjagleraugum. Ég ætla sem sagt að vera með landsbyggðargleraugun í máli mínu núna og fjalla fyrst og fremst um þau mál sem snúa að landsbyggðinni og niðurskurði hjá hæstv. ríkisstjórn á málaflokkum sem skipta dreifðar byggðir miklu máli.

Ég ætla fyrst að nefna sóknaráætlun landshluta sem miklar vonir eru bundnar við víða um land. Mikil vinna og tími af hálfu landshlutasamtaka og heimamanna hefur farið í að vinna að þróun þessa framsækna verkefnis. Markmið sóknaráætlunar er að færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna á hverjum stað. Verkefnin sem eru fjármögnuð í gegnum sóknaráætlun eru á sviði atvinnumála, nýsköpunar, markaðsmála og mennta- og menningarmála. Fjárveiting upp á 400 millj. kr. sem fóru í þetta verkefni á þessu ári, og áætlað var að auka það fjármagn verulega á því næsta, er þurrkuð út í þessu frumvarpi.

Þá kem ég að niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Þær eru lækkaðar um 76 millj. kr. og ég minni á að stjórnarflokkarnir boðuðu í stefnuyfirlýsingu sinni jöfnun á raforku- og húshitunarkostnaði. Ef þetta eru efndirnar veit ég ekki hvaða dagur er í dag. Það þekkja allir þann gífurlega háa kyndingarkostnað sem íbúar á köldum svæðum búa við og er þessi lækkun á niðurgreiðslum því ekki á bætandi.

Dreifbýlisstyrkir eru skornir niður um 8,8 millj. kr. en þeir skipta miklu máli fyrir þá nemendur sem stunda framhaldsnám fjarri heimili sínu og eru skref í þá átt að jafna námskostnað óháð búsetu. Hjá mörgum heimilum getur þessi stuðningur skipt sköpum fjárhagslega í jöfnu aðgengi ungs fólks að framhaldsnámi.

Ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til verkefnis um jöfnun flutningskostnaðar á næsta ári en rúmar 196 millj. kr. fóru í það verkefni í ár. Markmið laga sem sett voru á síðasta kjörtímabili voru að styðja við framleiðslu- og útflutningsgreinar sem eru fjarri innanlandsmarkaði og útflutningshöfnum og búa því við skerta samkeppnisstöðu.

Menningarsamningarnir eru skornir niður á landsbyggðinni en þeir hafa stuðlað að öflugra menningarlífi og í gegnum þá hefur verið hægt að styðja við ýmis góð og atvinnuskapandi verkefni.

Ríkisstyrktar flugleiðir innan lands á óarðbærum leiðum eru skornar niður um 76 millj. kr. Í samgönguáætlun er innanlandsflug skilgreint sem mikilvægur hluti af almenningssamgöngum. Þetta á ekki hvað síst við um afskekktar byggðir þar sem flugið skiptir gífurlega miklu máli við að treysta byggð og tryggja þjónustu við fólk og fyrirtæki. Mikill niðurskurður er í almennri vegagerð og er það verulegt áhyggjuefni þar sem almennt viðhald og uppbygging hefur verið í lágmarki undanfarin ár, en stærri verkefni eins og á suðurhluta Vestfjarða hafa verið í forgangi eftir hrun. Nú þegar við eigum að hafa efni á að fara að spýta í lófana í almennri vegagerð kýs ríkisstjórnin að skerða stórlega markaða tekjustofna Vegagerðarinnar í nýframkvæmdum og viðhaldi.

Ég vil nefna framkvæmdir og uppbyggingu heilbrigðisstofnana eins og á Selfossi og í Stykkishólmi. Þær lenda undir niðurskurðarhnífnum.

Háskólarnir á landsbyggðinni lenda harkalega í niðurskurði og miklar áhyggjur eru af framtíð þeirra í ljósi þessara fjárlaga. Til stendur að fækka til muna stofnunum með færri en 30 starfsmönnum sem mun bitna harkalega á landsbyggðinni. Einnig á að skera niður hjá menningarsöfnum á landsbyggðinni.

Skorið verður niður hjá fjarskiptasjóði og hjá Byggðastofnun sem ætlaði að fara í það verkefni að styðja brothættar byggðir.

Það er umhugsunarvert ef þessi hæstv. ríkisstjórn telur að matarholurnar séu á landsbyggðinni.

Ég treysti því að réttsýnir þingmenn muni breyta þessari forgangsröðun og snúa þessu við því að þetta er aðför að landsbyggðinni og við þurfum að taka (Forseti hringir.) á þessu og snúa þróuninni við.