143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að Matvælastofnun eigi að fá úrlausn við 2. umr. fjárlaga og viðbótarfé upp á 105 milljónir; þar fer þá 1/5 af afganginum.

Varðandi Byggðastofnun og svör hæstv. ráðherra að öðru leyti þá hverfur ekki þörfin þó að menn hafi hafið verkefni og sett inn fjárveitingu til eins árs. Hæstv. núverandi ríkisstjórn verður að fara að venja sig á að líta svo á að hún beri ábyrgðina. Hún verður að greina þörfina. Það er alveg eins með fyrirkomulagsatriði, sóknaráætlun menningarsamninga. Menn geta haft skoðanir um að það eigi kannski að breyta eitthvað fyrirkomulagi eða framkvæmd. Reyndar er ég ósammála hæstv. ráðherra um það, ég held að það liggi algerlega fyrir að sóknaráætlanirnar hafa verið vel heppnaðar. Það er búið að leggja mikla vinnu í að byggja upp og það væri óskapleg synd að stúta því eins og ætla mætti af fjárlagafrumvarpinu að standi til. Gott og vel, ríkisstjórnin má hafa sínar hugmyndir um að breyta skipulagi þessara mála og framkvæmd en það mun þurfa peninga ef menn ætla að gera eitthvað.

Það sem skiptir máli hér er að fjárlagafrumvarpið er tómt meira og minna þegar kemur að þessum sprotum og þessari uppbyggingu og þeirri sókn sem menn ímynduðu sér að væri verið að hefja upp úr erfiðleikunum með því að styðja við nýsköpun og þróun, með því að hlúa að brothættum byggðum, með því að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar o.s.frv. Sóknaráætlanir landshlutanna eru eitt mikilvægasta hryggjarstykkið í þessu, að vinna með landshlutunum á forsendum heimamanna þar sem þeir taka ákvarðanirnar um forgangsröðun. Gott og vel, ef menn hafa hugmyndir um betra fyrirkomulag eða hvað það væri færa þeir völdin hingað til Reykjavíkur aftur.

Þetta mun alltaf að lokum snúast um þetta: Verður sett eitthvert fjármagn inn í fjárlögin til þess að hægt sé að gera eitthvað af þessu tagi hvernig sem því er fyrir komið? Núllin, það eru núllin í þessu frumvarpi sem eru mestu vonbrigðin. Auðvitað er þetta frumvarp kjaftshögg á landsbyggðina (Forseti hringir.) og dreifbýlið sérstaklega. Maður hefði kannski átt von (Forseti hringir.) á öðru miðað við það hvernig sumir töluðu hér (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili.