143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú biðja hv. þingmann um að anda með nefinu, klukkan er ekki orðin ellefu. Ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara í þessari ræðu sinni. Í framsöguræðu þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti þetta frumvarp komu fyrrverandi stjórnarliðar, þeir sem voru í ríkisstjórn áður, og hældu sér af því að meginuppistaða frumvarpsins væri þeim að þakka, að verið væri að búa til eitthvert svigrúm. En hvernig var svo viðskilnaðurinn? Hvað beið þessarar ríkisstjórnar? Gat upp á 25–30 milljarða. Hvernig heldur hv. þingmaður að eigi að stoppa upp í það? (Gripið fram í.) Það var með ólíkindum að hlusta á þá ræðu sem hér var flutt. Þegar þingmenn koma hingað upp, nýbúnir að vera í ríkisstjórn, ráðherrar jafnvel, algerlega ábyrgðarlausir.