143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerði meðal annars að umtalsefni mögulega uppbyggingu í sjávarútveginum. Það er mjög mikilvægt þegar menn ræða um sjávarútveginn að horfa á atvinnugreinina í heild. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að hvergi sé meiri uppspretta nýsköpunar og framfara en í sjávarútveginum og tengdum greinum.

Vöxtur afleiddra fyrirtækja í sjávarklasanum hefur verið gríðarlegur og ég er með tölur um að velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum sé 66 milljarðar kr. og velta fyrirtækja sem eru í líftækni og fullvinnslu 22 milljarðar. Þetta sprettur út af þessari atvinnugrein og þess vegna er svo mikilvægt að atvinnugreinin sem slík hafi burði til að taka þátt í nýsköpun, taka þátt í vöruþróun og annarri þróun, nýta betur hráefni eða allt slíkt. Þess vegna er svo mikilvægt að menn taki ekki kraftinn úr þessari atvinnugrein frekar en hverri annarri. Þegar menn ræða um hvað einstakar atvinnugreinar geta lagt til samfélagsins og allt slíkt verða menn líka að taka það inn í myndina að það eru svo gríðarlega mörg afleidd störf og afleiddur hagnaður, ef þannig má orða það, sem kemur út úr þessari atvinnugrein.