143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[10:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra varðandi óþrjótandi möguleika á að efla íslenskan sjávarútveg og auka þar verðmætasköpun. Við eigum að horfa vítt í þeim efnum. Það er auðvitað grunnurinn að því að hlúa að brothættum byggðum að tryggja öfluga starfsemi grunnatvinnugreina okkar um allt land. Tækifærin liggja víða. Stjórnvöld þurfa að skapa sátt, umhverfi sem þessi grein getur treyst að verði við lýði á næstu árum. Það er meginverkefni þingsins á komandi vetri að mínu mati.

Mig langar aðeins að koma inn á þróun í landbúnaði. Þróun í landbúnaði okkar hefur verið jákvæð. Við erum með örmarkað í öllum samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við. Auðvitað mun íslenskur landbúnaður alltaf bera af því keim að samkeppnisstaða hans verður erfið í samanburði við stór verksmiðjubú, að við getum kallað, eða bú af miklu stærri skala á erlendum mörkuðum. Íslenskur landbúnaður keppir þó klárlega á öðrum sviðum þar sem hann stendur framar þessum greinum í öðrum löndum. Þar erum við að tala um hreinleika framleiðslunnar og gæði. Þetta á mjög víða við í landbúnaði hvort sem við komum að hinum hefðbundna landbúnaði, förum yfir í kjúklinga- og svínarækt eða garðyrkjuna. Við stöndum skrefi framar en aðrar þjóðir á þessum vettvangi. Þetta ber að vernda. Þetta er ekki sjálfsagt mál.

Það þarf að huga að mörgum þáttum, virðulegi forseti, þegar við ræðum um þróun í landbúnaði til lengri tíma. Við þurfum að hugsa um matvælaöryggi, við þurfum að hugsa um byggðaþróun, við þurfum að hugsa um nýsköpun og við þurfum að hugsa um eflingu … (Forseti hringir.)