143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:09]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þegar reka á heimili þarf að forgangsraða, velja og hafna. Eins og getur komið upp á heimili þá er ég ekki alveg sátt við forgangsröðunina í heild en þegar litið er til dæmis til sjávarútvegs- og landbúnaðarmála er ég ánægð með að hæstv. ráðherra ætlar að reyna að einfalda kerfið er snýr að hans ráðuneytum. Regluverkið í dag er meira til þess að þvælast fyrir framkvæmdum og tefja uppbyggingu en að vera til gagns. Eftir að hafa sótt um tugi leyfa vegna einnar framkvæmdar þá situr maður uppi með fjöldann allan af pappírum, enga tvo frá sömu stofnuninni jafnvel þó að þær heyri allar undir sama ráðuneyti og þarf enn að bíða eftir svari hvort framkvæmdin megi ganga fram. Ég efast ekki um að með einföldun muni kostnaður við til dæmis eftirlit lækka til muna.

Í texta fjárlagafrumvarpsins sést vel að farið hefur verið yfir málaflokka er snúa að landbúnaði og úrbætur, sem gera þarf til dæmis á stoðkerfinu vegna kynferðis umsækjenda til þess, eru til teknar. Stuðningur við íslenska framleiðslu hverfur ekki enda nauðsynlegt að styðja við framleiðslu okkar til að fólk nýti þau tækifæri sem eru til staðar og nýsköpun innan greinarinnar fái að blómstra. Þar liggja miklir fjármunir til framtíðar litið.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram heimild til aukinnar framleiðslu en styrkir á móti standa í stað. Líta má á þetta sem skref í áttina að tillögum Efnahags- og framfarastofnunar OECD um lækkun matvælaverðs sem mun þá nýtast þeim er minnst hafa á milli handanna.

Ánægjulegt er að sjá hækkun til ylræktar og tel ég að löngu hafi verið kominn tími til að vinna á þeim málaflokki. Um leið og framleiðsla eykst fer ný þróun af stað í ræktun, úrvinnslu og sölu og með hvers kyns nýsköpun verða til fleiri störf innan landbúnaðargeirans. Nýsköpun er vannýtt auðlind.

Ég get ekki talað nógu oft um þá staðreynd að auka þarf landbúnað á heimsvísu um 60–70% næstu 40 árin. Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa margir farið mikinn um afnám jöfnunar flutningskostnaðar, jafnvel þótt klárt sé að þannig sé það ekki því að til er í sjóðnum og því þurfti ekki að setja hann á fjárlög í þetta sinn. Hv. þingmaður fordæmir vafann sem fram kom í máli hæstv. ráðherra en komið hefur í ljós að þeir sem eiga að njóta góðs af þessari jöfnun segja hana ekki hafa skilað miklu til sín. Á Vestfjörðum er til dæmis talað um að skipaferðir sem teknar hafa verið upp séu mun meiri bót fyrir fyrirtæki á svæðinu en jöfnunin sem heldur þó áfram. Hv. þingmaður hlýtur því að sjá að aðrir kostir eru í boði sem skila sér betur fyrir byggðarlögin.

Þurfum við ekki með einföldun og tiltekt að skoða hvaða leiðir gagnast byggðarlögum best, hvert á að setja peninginn svo að hann skili sér jákvætt í staðinn fyrir að einblína aðeins á hvort hann sé á sama stað og í fyrra?