143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Já, hér hefur verið rætt að sjávarútvegurinn er grunnstoð í efnahag íslensku þjóðarinnar og það er hárrétt. En þeir sem afla tekna og skapa atvinnu — vissulega er rétt sem hefur komið fram í umræðum að mikil nýsköpun verður til í landinu einmitt vegna þess að við erum sérfræðingar í því að reka sjávarútveg, en það þýðir ekki það, virðulegi forseti, að sjávarútvegurinn eigi ekki að borga til samfélagsins. Hér er stórgróði á ákveðnum útgerðarfyrirtækjum. Önnur hafa það kannski verr og þá ber að leiðrétta það. En það ber ekki að lækka þau heildargjöld sem þessi atvinnuvegur greiðir til samfélagsins í landinu.

Það hefur vakið athygli mína undanfarið að menn tala um að það þurfi að spýta meira fé í þennan atvinnuveg, það megi ekki taka þessar tekjur frá sjávarútveginum af því að menn geti ekki fjárfest. Þeir geta fjárfest. Þeir hafa kannski ekki viljað fjárfesta af pólitískum ástæðum vegna þess að þeirra flokkar voru ekki við völd. Ég skal ekki um það segja en það hlýtur að vera þannig að í sjávarútvegi sérstaklega á fjárfestingin að koma frá atvinnuvegunum en ekki frá ríkinu. Ég held að hv. þm. Jón Gunnarsson eigi að skilja það. En það er svo skrýtið að þeir sem mæla mest fyrir einkaframtaki í landinu vilja ekki að einkaframtakið, atvinnuvegirnir, hjálpi okkur við að reka þetta samfélag sem þeirra flokksmenn settu þó á hausinn. (Gripið fram í: Þetta er rangt.)