143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:30]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Björt Ólafsdóttur þegar hún talar um sátt í sjávarútvegi. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Við erum svo heppin að sjávarútvegsráðherrann talar líka á sömu nótum og við sem erum í atvinnuveganefnd viljum að sátt ríki um veiðigjöldin og um útveginn. Það er björt framtíð í sjávarútvegi, það eru gríðarleg tækifæri fram undan. Við sjáum það á hverjum degi. Það voru góðar fréttir í dag um að auka eigi makrílkvótann um 350 þús. tonn. Það hlýtur að skapa góða samningsstöðu okkar í þeirri deilu við Evrópusambandið.

Það á að auka kolmunnakvótann um 50 þús. tonn og við viljum auka þorskkvótann um 20–30 þús. tonn. Ég held að það sé innstæða fyrir því líka. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum þessi tækifæri núna þegar þjóðfélagið þarf mest á því að halda. Við þurfum líka að ná sátt um hvernig við skiptum þeim tekjum, ég er algjörlega sammála því. Útvegurinn þarf að greiða sín gjöld, hann greiðir 20 milljarða eins og hér hefur komið fram og þingmennirnir á mölinni býsnast mikið yfir því en þeir tala minna um 60 milljarðana sem bankarnir hafa og vilja ekki ganga eins mikið í þá. Ég held að við þurfum að sækja peninga þangað líka.

Ég held að það sé líka mikilvægt að þessum tekjum verði réttlátlega skipt milli þeirra sem vinna við útveginn, að laun og annað slíkt verði ekki fyrir borð borið.

Við sjáum upplýsingar um það hvernig veiðigjaldið og sérstaka veiðigjaldið kemur niður á útgerðinni. Upplýsingar frá útgerð sem ég fékk í morgun sýna fram á að fyrirtæki sem seldi sinn afla á 75 kr. til fiskvinnslustöðvar borgar 37,10 kr. í veiðigjöld. Það þarf ekki mikla stærðfræði til að sjá að auðvitað gengur slík útgerð ekki upp. Við þurfum að ganga aðeins hægar um gleðinnar dyr í skattstofninum. Það er mikilvægt.

Við þurfum líka að auka skilvirkni í sjávarútveginum, hjá Fiskistofu, á fiskmörkuðunum. Við þurfum að efla fiskmarkaðina mjög mikið að mínu viti og auðvelda samskipti við Fiskistofu sem kostar okkur 800 millj. kr. á ári. Það er spurning hvort við getum ekki sparað þar eitthvað af peningum til að leggja í spítalana og annað sem okkur vantar peninga í. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það eru mörg tækifæri í sjávarútvegi, ég nefni að sjávarklasarnir eru að gera stórkostlega hluti. Við þurfum að halda utan um þetta eins og fjöreggið okkar og vinna að sátt í útveginum. Ég er algjörlega á því og að þar liggi tækifærin.