143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég er með þrjár spurningar. Sú fyrsta snýr að byggðastefnu. Mér hefur eiginlega aldrei fundist vera almennileg byggðastefna á Íslandi. Það kemur reyndar fyrir að opinber störf eru flutt út á land, gjarnan með miklum harmkvælum, en það fer lítið fyrir því þegar þau sogast suður aftur. Nú síðast voru tvö störf að fara frá Akureyri þar sem skrifstofu umboðsmanns skuldara var lokað.

Byggðastefna er auðsjáanlega meira en jöfn dreifing opinberra starfa á landsbyggðinni og mig langar að spyrja: Hvar er byggðastefna þessarar ríkisstjórnar? Hvar finn ég plaggið, því að það vil ég gjarnan lesa.

Svo er ég með aðra spurningu, hún snýr að sauðfjárframleiðslu. Ég velti fyrir mér: Af hverju er ekki öll sauðfjárframleiðsla í dag gæðastýrð? Er ekki löngu kominn tími til þess? Þetta er óþarfaflækjustig og eykur kostnað.

Þriðja spurningin snýr að Bændasamtökunum. Þau fá hátt í 500 millj. kr. frá ríkinu á ári hverju. Mig langar að spyrja hvort það sé eðlilegt að Bændasamtökin fái hátt í 500 millj. kr. á meðan hagsmunasamtök neytenda fá 8,4 millj. kr. Þau fengu hæst 12 milljónir, það lækkaði í hruninu niður í 8 milljónir og hefur varla hækkað síðan. Er þetta eðlilegt? Ég geri ekki lítið úr því að Bændasamtökin fái fjárstyrk frá ríkinu en mér finnst þessi munur óeðlilegur.