143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það fengu náttúrlega allir á sig þessa almennu hagræðingarkröfu, þar á meðal þeir sem fá greiðslur frá ríkinu, hvort sem það eru Bændasamtökin eða einhverjir aðrir, samkvæmt samningum um það. Bændasamtökin fá þessa greiðslu samkvæmt samningum við þau. Ef taka ætti hana af þyrfti væntanlega að endurskoða alla slíka samninga og þess háttar.

Byggðastefna — það er verið að vinna að stefnumótandi byggðaáætlun þannig að það er ekkert undarlegt að hv. þingmaður hafi ekki séð slíkt plagg. Það er einfaldlega ekki komið fram.

Ég vona svo sannarlega að þegar það plagg kemur fram kveði við nýjan tón því að það er full ástæða til þess að endurskoða hvernig við höfum staðið að byggðamálum og byggðasókn, síðastliðin, ég ætla að leyfa mér að segja tíu, fimmtán ár. Það hefur gjarnan verið þannig að við reynum að styrkja landsbyggðina með annarri hendinni en tökum eitthvað með hinni. Það er ekki mjög skynsamleg byggðastefna. Ég vona svo sannarlega að við getum lagt fram stefnu sem miðar að því þó að það gerist ekki alveg strax að horfið verði frá þessu.

Hv. þingmaður spurði um eitt enn. (BP: Gæðastýringuna.) Já, gæðastýringuna. Ég verð bara að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að þar rekur hún þennan staðgengil algerlega á gat, hvernig stendur á með þetta gæðastýringarmál.