143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það eru margir hattar í dag. Gert er ráð fyrir því að útgjöld umhverfis- og auðlindaráðuneytis dragist saman um 384,9 millj. kr. á föstu verðlagi fjárlaga 2013 en þegar einnig er tekið tillit til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum lækka útgjöldin um 225,6 milljónir milli ára, þ.e. sem svarar til 2,2%. Rétt er hins vegar að benda á að einungis rétt rúmlega helmingur útgjaldaramma ráðuneytisins er fjármagnaður með beinu framlagi úr ríkissjóði og nemur lækkun í útgjaldaramma þess hluta 702,6 millj. kr. sem þýðir í raun 6,9% lækkun útgjalda áður en tekið er tillit til verðlagsbreytinga upp á 159,3 milljónir. Hinn hluti fjárlagaramma ráðuneytisins er fjármagnaður með mörkuðum tekjum og styrk frá Evrópusambandinu og hækkar hins vegar um 3,1% á milli ára, um 317,7 millj. kr.

Útgjaldabreytingum milli ára má skipta í þrjá þætti:

1. Gerðar verða ráðstafanir til að lækka útgjöld ráðuneytisins í samræmi við það markmið sem ríkisstjórnin hefur sett í áætlun um ríkisfjármálin. Ráðuneytið hyggst ná þessum aðhaldsmarkmiðum með almennri rekstrarhagræðingu og forgangsröðun verkefna hjá ráðuneytinu og stofnunum þess. Þarna er um að ræða 105 millj. kr.

2. Ýmsar breytingar verða gerðar á útgjaldaskuldbindingum sem falla til á árinu 2014, þar með talin framlög sem ákveðið hefur verið að veita til nýrra verkefna ráðuneytisins eða aukins umfangs.

3. Ný ríkisstjórn mun þurfa að forgangsraða verkefnum. Fallið verður frá nýlegum framlögum til verkefna sem ýmist eru ekki hafin eða komin stutt á veg. Þar er einkum um að ræða verkefni í fjárfestingaráætlun í fjárlögum 2013. Ekki kemur til álita að fjármagna verkefni með frekari skuldasöfnun. Þarna er um að ræða rúmar 660 millj. kr.

Það er hins vegar unnið að því að finna færar leiðir til að fjármagna framkvæmdir til uppbyggingar á íslenskum náttúruperlum á næstu árum. Þeim tekjum sem innheimtast verði ráðstafað í sjóð sem mundi eftir nánari reglum geta fjármagnað uppbyggingu og rekstur ferðamannastaða í samráði við hagsmunaaðila og haldið síðar áfram með þeim áformum um uppbyggingu sem nú þarf að fresta vegna skorts á fjármagni.

Fjöldi ferðamanna hefur aukist verulega á síðustu árum og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram næstu ár. Í þessu felast að sjálfsögðu veruleg tækifæri en jafnframt er mikilvægt að vöxturinn í ferðaþjónustunni sé á varanlegum og traustum grunni og valdi ekki óæskilegu álagi eða spilli náttúru. Það er því mjög mikilvægt og brýnt verkefni að leita leiða til fjármagna nauðsynlega innviðauppbyggingu í íslenskri náttúru til að ferðaþjónustan geti haldið áfram að vaxa og dafna og ekki skapist óæskilegt álag sem spilli viðkvæmri náttúru.

Er þess vænst að fljótlega verði hægt að leggja fram tillögur á þessu sviði. Fyrir liggja fjölmargar greiningar og skýrslur um þessi mál þar sem velt er upp ýmsum leiðum sem mikilvægt er að greina þannig að hægt sé að vinna og leggja fram tillögur sem góð sátt skapast um, ekki síst innan ferðageirans og skili þeim umbótum sem þörf er á. Er þá horft til þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra fjölsóttra svæða. Mikilvægt er að hafa skýra framtíðarsýn og bregðast við í tæka tíð. Má því gera ráð fyrir að hægt verði að horfa bjartsýnum augum til framtíðar og framlag úr sjóðnum renni til þjóðgarða eins og Vatnajökulsþjóðgarðs sem og annarra náttúrusvæða eftir því sem þörf er á hverju sinni. Mikilvægt er að halda því til haga að þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri er inni í myndinni og hefur ekki verið slegið út af borðinu þó svo að ekki sé hægt að veita fjármuni í þá uppbyggingu á árinu 2014. Við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var gert ráð fyrir að komið yrði upp upplýsinga- og þjónustumiðstöð þjóðgarðsins. Þekkingarsetrinu á Kirkjubæjarklaustri er ætlað að sameina undir einu þaki gestastofu þjóðgarðsins og skrifstofur. Slík uppbygging yrði mikill akkur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og íbúa á svæðinu. Um það held ég að sé ekki deilt.

Mjög brýnt er að bæta úr aðgengi og aðstöðu fyrir þá fjölmörgu ferðamenn sem sækja Snæfellsnes heim og er því fyrirhugað að veita 30 millj. kr. árið 2014 til uppbyggingar fyrir aðstöðu fyrir ferðamenn á Snæfellsnesi. Má þar nefna að leggja þarf nýja göngustíga og bæta þá sem fyrir eru. Bæta þarf bílastæðisaðstöðu, salerni o.fl. Á næstu árum er síðan gert ráð fyrir að ferðamannasvæði njóti úthlutunar úr áðurnefndum sjóði til uppbyggingar á ferðamannastöðum.

Þá er gert ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi til endurgreiðslna vegna refaveiða. Veiðar á ref voru skipulagðar og fjármagnaðar í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, samanber lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Gert er ráð fyrir að samningar verði gerðir við hagsmunaaðila og sveitarfélög um veiðar á viðkomandi svæði. Eftir að endurgreiðslur ríkisins hættu til sveitarfélaga vegna refaveiða hefur refastofninn stækkað mikið síðastliðin ár sem meðal annars birtist í því að refir eru nú ágengari við mannabústaði en áður hefur verið. Refurinn er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og er talinn hafa numið hér land á síðustu ísöld. Stofninn er því sérstakur og tengdur íslenskri náttúru. Mikilvægt er því að vandað sé til skipulagningar á refaveiðum svo ekki sé hætta á að stofninn hljóti skaða af.

Þá verður endurnýjaður samningur við Skógræktarfélag Íslands upp á 35 millj. kr. Markmið með samningnum er að vinna að endurheimt landgæða með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land. Vinnuframlagið kemur frá skógræktarfélögunum vítt og breitt um landið sem styðja við uppbyggingu skógræktar á Íslandi. Með verkefninu er jafnframt unnið að framkvæmdaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og framkvæmd stefnumörkunar stjórnvalda í skógrækt.