143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Skoðanir mínar sem þingmanns og starfandi ráðherra og skoðanir hv. þingmanns í umhverfismálum fara örugglega ekki alltaf saman. En það gerir það ekki endilega að verkum að mín sýn á umhverfismál og auðlindanýtingu sé endilega eitthvað verri. Mér finnst því miður eins og sumir tali stundum þannig að við sem ekki erum lengst til vinstri eða teljumst til hörðustu umhverfissinna eða eitthvað slíkt höfum enga sýn á náttúruumhverfi. Ég held að það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu og stefnu þessarar ríkisstjórnar sé það að menn vilji nýta náttúruna og gera það af skynsemi, ekki loka á möguleika eða neitt þess háttar.

Hv. þingmaður nefnir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri. Eins og ég sagði áðan er það að sjálfsögðu rétt, það er verið að skera niður fjárveitingu sem þar var, en það er ekki verið að hætta við verkefnið. Ef við ætluðum að hætta við verkefnið hefði það einfaldlega komið fram, menn hefðu sagt það, að sjálfsögðu. (Gripið fram í.) Verkefninu hefur verið slegið á frest og vonast er til að við getum farið af stað 2015. Það væri rangt af mér að standa hér og gefa einhver loforð um að það yrði gert 1. mars 2015 eða eitthvað slíkt ef ég gæti svo ekki staðið við það. En við vonumst til þess að þá verði búið að finna fjármuni (Gripið fram í.) til að fara í þetta verkefni, við vonumst til þess, að sjálfsögðu. (SJS: … framsóknarmenn …) Jú, við lofuðum að sjálfsögðu ákveðnum hlutum og við ætlum okkur að reyna að standa við þá, hv. þingmaður sem kallar hér fram í, Steingrímur J. Sigfússon, að sjálfsögðu. En til þess þarf að búa til peninga, peninga sem fyrrum ríkisstjórn og hv. núverandi alþingismaður sáu ekki fyrir að þyrfti að afla, fóru ekki í að afla þeirra tekna sem þarf í þetta. Að ætla svo að tala um að veiðigjald hafi átt að fara í (Forseti hringir.) uppbyggingu á þessu er fáránlegt því að veiðigjaldið hefur þá tekið störf frá einhverjum öðrum úti á landi mögulega.