143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gott að vita til þess að það er siðbótarátak í gangi í Framsóknarflokknum og að menn eru farnir að horfast í augu við að það er rangt að lofa því sem menn geta ekki staðið við. Það er líka rangt að lofa ef menn sjá ekki peningana í hendi. (Gripið fram í: Þetta er alveg …) Þetta eru eiginlega alger þáttaskil í þessari umræðu. Ég bendi á bæði umræðu um Landspítalann í þessu samhengi en ekki síður vetrarbrautarmetið góða í skuldaúrvinnslu heimilanna sem var líka heldur betur stórt loforð.

Það er mjög áhugavert að heyra hvernig hæstv. ráðherra talar um málaflokkinn. Hann lítur svo á að það að standa vörð um umhverfismál í þágu náttúruverndar endurspegli eitthvað sem heitir að vera lengst til vinstri. Er þetta afstaða (Utanrrh.: Hvað segirðu?) ráðherrans (Gripið fram í: Hann sagði það ekki.) (Utanrrh.: Ég sagði það ekki.) sem er úr flokki Eysteins Jónssonar og Steingríms Hermannssonar sem voru einu sinni fánaberar grænna fána í íslenskum stjórnmálum? (Gripið fram í.) Er það orðið svo að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins leggi lykkju á leið sína til að sverja af sér það að náttúruvernd geti verið hjartað og kjarninn í umhverfismálum? Þetta snýst alltaf um, segir hæstv. ráðherra, að nýta náttúruna af skynsemi. Gæti verið að þetta snúist nefnilega alls ekkert um tölur á blaði í fjárlagafrumvarpinu heldur miklu frekar það að hér endurspeglast pólitísk afstaða til náttúruverndar og umhverfismála? Það skyldi þó aldrei vera að hér afhjúpaðist það að þingflokkar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins líti svo á að umhverfis- og náttúruverndarmál séu einfaldlega ekki í samræmi við stefnu viðkomandi flokka. (Gripið fram í: Þetta var bull.) (Gripið fram í: Er það?)