143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held, eða vona allavegana, að við getum verið sammála um að í hinum fullkomna heimi þyrfti ekkert umhverfisráðuneyti eða annars konar ráðuneyti. Við erum því miður ekki í hinum fullkomnum heimi (Gripið fram í.) og þess vegna erum við með og verðum áfram með umhverfisráðuneytið, að sjálfsögðu. Ég vona að spurningunni sé svarað varðandi það.

Ég ætla að leyfa mér að leiðrétta hv. þingmann. Þótt ég sé utanríkisráðherra í hinu hlutverkinu er það nú einu sinni þannig að umhverfismál eru eitt helsta áherslumál okkar þegar kemur að þróunarmálum, svo dæmi sé tekið. Landgræðsla, betri nýting á sjávarafurðum og annað slíkt. Þannig er það. Auðvitað er langt á milli þessara ráðuneyta að því leyti til en þarna eru verkefni og áhuginn er klárlega til staðar.

Varðandi umhverfisráðuneytið vil ég ítreka það sem hefur komið fram: Það verður til umhverfisráðuneyti. Það er verið að velta fyrir sér verkaskiptingu milli ráðuneyta og þegar því er lokið og annað slíkt verður það tilkynnt. Ég vona að menn geti verið rólegir yfir því. Þetta hlýtur að koma og kemur að sjálfsögðu.

Mig langar að koma að einu sem ég gleymdi áðan eða mistókst að skýra og er varðandi gistináttagjaldið sem var talað um, það er inni. Talað var um 126 milljónir en uppfærsla á áætlun sýnir að það eru í kringum 190 milljónir sem eru inni varðandi gistináttagjaldið og þar er hlutur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um 60%. Þetta er því allt þarna inni.

Hvað varðar það að menn sakni hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, sem ég skil reyndar mjög vel, þá munu vonandi og örugglega gefast mörg tækifæri til að að spyrja hann síðar.