143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra og starfandi umhverfisráðherra átti sig á því að hér eru raunverulegar áhyggjur á ferðinni um það hvert við stefnum í þessum efnum. Það er margt sem bendir til þess að Framsóknarflokkurinn og umhverfismál séu eins og olía og vatn, bókstaflega. Gott og vel, þróunarmál geta vissulega heyrt til þess málaflokks en hvernig birtist áhersla hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum? Ég heyri ekki betur þegar hæstv. forsætisráðherra fjallar um til dæmis loftslagsmál og þróun mála á Norðurskautinu að það sé iðulega undir þeim formerkjum hvað við Íslendingar stöndum vel að vígi gagnvart öðrum þjóðum í þeim breytingum sem eru að verða á heiminum af völdum loftslagsbreytinga. Hversu vel við getum makað krókinn á því að það séu að opnast nýjar siglingaleiðir og hér sé matvælaöryggi tryggt o.s.frv.

Ég sé ekki að þetta geti fallið undir það að vera einhvers konar umhverfisstefna. Mér finnst hún ekki geðsleg þessi framtíðarsýn. Mér finnst ekki geðslegt að fjalla um málin út frá þeim sjónarhóli. Ég hefði frekar viljað sjá Íslendinga fjalla um þau með það að markmiði að leysa málin, að leggja sitt af mörkum, að draga úr losun, að vera leiðandi, að vera fyrirmyndarríki í þeim efnum en ekki það land sem stendur best að vígi þegar kemur að breyttri heimsmynd. Það gefur ekki til kynna mjög fallega framtíðarsýn í málaflokknum. Ég hef áhyggjur af því hvert Framsóknarflokkurinn stefnir í þessu, ég lýsi því hérna yfir. Ég lýsi því líka yfir að flokknum verður veitt mjög ákveðið aðhald í þessum málaflokki og mér sýnist ekki vanþörf á.