143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta var athyglisverð síðasta setning hjá hv. ræðumanni. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Það er mjög … (Gripið fram í: Geturðu ekki tekið undir það?) — Jú, ég get tekið undir með hv. ræðumanni að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er prýðisþingmaður.

Halli á fjárlögum gengur vitanlega ekki og það mikla gat sem blasti við er að sjálfsögðu nokkuð sem verið er að vinna á. Til lengri tíma verðum við að reyna að koma í veg fyrir að við förum aftur í fjögurra ára tímabil þar sem ekki er gert ráð fyrir nógu miklum tekjum inn í ríkissjóð eins og var á síðasta kjörtímabili, þ.e. í gegnum atvinnulífið, með því að byggja upp atvinnu og þess háttar. Það gengur ekki að leggja bara á nýja skatta og skattpína alla til þess að búa til tekjur. Það er hins vegar grundvallaratriði þegar við tökum að okkur að leggja fram fjárlagafrumvarp að það sé gert af ábyrgð, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, og að við séum það öguð þegar að því kemur að sprengja ekki þann ramma sem okkur hefur verið réttur og gefinn.