143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Bara örstutt um agann.

Hv. fjárlaganefnd fór í ferð til Svíþjóðar til að kynna sér hvernig Svíar, sem höfðu gengið í gegnum sambærilegar þrengingar og Íslendingar, hefðu hagað fjárlögum sínum. Þar er samstaða um að þingmenn geti ekki gagnrýnt niðurskurð eða lofað auknu fjármagni í framkvæmdir án þess að sýna hvar þeir vilji taka fjármuni. Síðasta ríkisstjórn fór af stað með tillögur að nýjum fjárreiðulögum, kláraði það ekki. Við ætlum að klára það, vegna þess að við ætlum að koma á þeim nauðsynlega aga sem verður að ríkja í fjárreiðum ríkissjóðs.

Við þurfum að taka mikla og góða umræðu um umhverfismál, að sjálfsögðu. Mér er minnisstætt þegar biskup Íslands sagði í ræðu sinni, þegar vorþingið var sett, að verkefni samtímans væri að finna skilin á milli verndar og nýtingar náttúru Íslands. Ég veit að sitt sýnist hverjum. Ég vil þó taka fram að núverandi ríkisstjórn hefur ekki stigið nein þau skref sem fráfarandi ríkisstjórn sté — ég sé að hv. þingmaður ranghvolfir augunum, við höfum ekki gengið lengra en fráfarandi ríkisstjórn gerði. Við ætlum okkur að gera betur. Ég held að það verði að vera lokaorð mín í þessari umræðu.

Ég hlakka svo til að starfa með umhverfis- og samgöngunefnd. Við höfum átt mjög gott samstarf og til að mynda farið og kynnt okkur málefni Mývatns og Bjarnarflags. Það var góð ferð og uppbyggileg. Það kenndi okkur, (Forseti hringir.) held ég, að umræðan er pínulítið á villigötum. Við verðum að leggja okkur öll fram til að ná henni niður á (Forseti hringir.) jákvætt og málefnalegt plan.