143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. starfandi umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir yfirferðina í upphafi þessarar umræðu. Ég vil þó í byrjun gera athugasemd við þau orð sem hann lét hér falla í umræðunni þegar hann sagði að síðasta ríkisstjórn hefði skilið eftir 25 milljarða halla og láðist að geta þess við hvaða búi sú ríkisstjórn tók sem var halli upp á hátt í 200 milljarða. Það var ekki sú ríkisstjórn sem skapaði þann halla, svo við höldum þeirri sögu til haga. Það er mjög mikilvægt þegar við ræðum hér fjármál ríkisins að við setjum þau í eðlilegt samhengi. Hér hefur auðvitað verið unnið gríðarlegt starf á undanförnum árum í að ná niður halla ríkissjóðs. Mér finnst því skjóta skökku við þegar hæstv. ráðherra kýs að sleppa þeirri sögu á undan. Ég geri því athugasemd við það. En að öðru leyti langar mig að fara sérstaklega yfir þá stefnumótun sem felst í plagginu.

Ég held að þetta sé ekki endilega rétti vettvangurinn til að ræða almennt stöðu mála í fjárlagafrumvarpinu. Við gerðum það í gær. Við ræddum þá um vægið á milli niðurskurðar og tekjuöflunar. Það er ekkert launungarmál að ég og mín hreyfing teljum að hæstv. ríkisstjórn hafi afsalað almenningi ákveðnum tekjum en ég vil ekki taka umræðuna út frá þeim grunni heldur út frá þeim niðurskurðartillögum sem birtast í frumvarpinu og snúa sérstaklega að innviðum friðlýstra svæða. Þar er tekinn gríðarlega stór biti upp á 250 milljónir í uppbyggingu friðlýstra svæða sem felldar eru niður á þremur stöðum, sem sagt samanlagt 250. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að til þess að geta haldið áfram þessari uppbyggingu þyrfti frekari greiningu, þyrfti frekari vinnu. Hvaða greiningu þarf í það? Við erum með Ástand friðlýstra svæða, yfirlit til umhverfisráðuneytisins frá Umhverfisstofnun sem birtist hér og er búið að vera í öllum fjölmiðlum. Við erum búin að taka þessa umræðu. Hæstv. ráðherra alveg eins og ég — við ferðumst um landið, við förum að Skógarfossi, við förum á Reykjanesfólkvang, við förum að Geysi, friðlandi að fjallabaki. Við vitum alveg um þau ummerki sem þar eru í ljósi þess að við höfum fengið þennan mikla fjölda ferðamanna til landsins. Við vitum alveg hver ummerkin eru eftir utanvegaakstur. Hvaða greining þarf frekar að fara fram? spyr ég hæstv. ráðherra. Við vitum nákvæmlega hver staðan er. Þetta er búið að vera í fjölmiðlum. Það er búið að vinna vandaða greiningu. Ég bið hæstv. ráðherra að svara því ekki til að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi verið vanfjármögnuð því að ég get þá bara komið hingað upp og endurtekið það sem ég hef sagt margoft áður, að núverandi ríkisstjórn sé búin að afsala sér sjálf þeim tekjum sem þar áttu að koma inn. Ég vil fá fram umhverfisvinkilinn. Hvaða greiningu telur hæstv. ráðherra að eigi eftir að framkvæma til þess að hægt sé að móta stefnu í því hvernig við ætlum að byggja upp friðlýst svæði? (Forseti hringir.) Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að brýn þörf sé (Forseti hringir.) að taka á þessum vanda?