143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:42]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég átti satt að segja ekki von á því þegar ég var kosinn á þing að ég kæmist í umhverfisnefnd og færi að fjalla hér um umhverfismál. (Gripið fram í: Ertu ekki glaður yfir því?) Ég er afskaplega glaður yfir því. (Gripið fram í.) Ég man það hins vegar að þegar ég var ungur og var búinn að kjósa nokkrum sinnum var ekki einu sinni til umhverfisráðuneyti. Nú hafa menn mestar áhyggjur af því að það verði lagt niður. Auðvitað skiptir engu máli hvað ráðuneytin heita, málaflokkarnir hverfa aldrei.

Mönnum er hér tíðrætt um framtíðarsýn — við erum að tala um fjárlagafrumvarpið — engin framtíðarsýn. Ég held að áður en menn geta farið að velta fyrir sér framtíðarsýninni verði þeir í fyrsta lagi að ná einhverri sjón. Hún næst ekki nema við náum hallalausum fjárlögum. Það þýðir ekkert að vera að tala um framtíðina, framtíðarsýn, rekandi ríkissjóð með halla upp á tugi milljarða á hverju ári. Á endanum verðum við algerlega blind. Það er bara þannig.

Auðvitað eru sum mál í þessum málaflokki bráðnauðsynleg. Það er bráðnauðsynlegt að taka til og bæta aðstöðu á þeim stöðum sem hafa orðið fyrir miklum átroðningi og eru við það að skemmast. Það er væntanlega verið að vinna í því með ákveðinni gjaldtöku til að fjármagna það.

Síðasta ríkisstjórn bjó til mikla fjárfestingaráætlun, græna hagkerfið og ýmislegt þess háttar og ætlaði að bæta við mörgum milljörðum, sem eru bara ekki til. Þeir hefðu ekkert orðið til heldur þótt það væri sótt alls staðar þar sem einhverjir væru aflögufærir. Það hefur afleiðingar. Við getum ekki alltaf tekið pening alls staðar þar sem hægt er að finna hann og haldið að það hafi engar afleiðingar fyrir tekjur ríkissjóðs til lengri tíma litið. Það gerist bara þannig. Við verðum einfaldlega að gera hlé á því sem er ekki nauðsynlegt. Bíða þangað til staðan er orðin betri. Það er ekki slík bráðahætta alls staðar þótt hætt verði við það sem fyrri ríkisstjórn ætlaði að gera. Við höfum nú verið með þetta land árum og áratugum saman í þokkalegu standi þrátt fyrir allt og meira að segja áður en umhverfisráðuneytið varð til.