143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:47]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get auðvitað tekið undir með hæstv. ráðherra um þetta mikilvæga atriði að grunnurinn sé góður, að staðan í efnahagslífinu sé það góð að hægt sé að horfa til framtíðar og bæta stöðuna enn meira en gert er.

Maður er auðvitað ekki sáttur við allt í fjárlagafrumvarpi. Við erum alltaf að rífast um að það hefði átt að ná pening þarna eða annars staðar. Um það snýst hin hugmyndafræðilega barátta. Mín sýn er ekki sú að ríkisvaldið sem alltaf er að finna ný og ný markmið og ný og ný útgjöld — allt er svo nauðsynlegt alla tíð — þurfi alltaf að sækja meiri og meiri pening. Á endanum bítum við í skottið á okkur með það.

Ég sá það einhvers staðar í blaði eða á vefmiðli í morgun að það hefði vantað pung við gerð þessa fjárlagafrumvarps. Ég held að það sé að hluta til rétt. Það vantaði kannski aðeins meiri kjark til að skera meira niður. Þá er ég ekki að tala um þennan málaflokk sérstaklega heldur almennt, að skera meira niður og forgangsraða meira. Það þarf kjark til þess. Ég veit að það er erfitt, en það er eins og okkur sé nánast ómögulegt að gera það almennilega.