143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:55]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ef mönnum er umhugað um málaflokkinn skipa þeir ráðherra til þess að fara með hann. Ef þeim er umhugað um málaflokkinn mætir viðkomandi ráðherra í þingið til þess að svara fyrir málaflokkinn. Ef mönnum er umhugað um málaflokkinn tala þeir ekki um að afturkalla lög um náttúruvernd. Ef mönnum er umhugað um málaflokkinn tala þeir ekki um að taka upp rammaáætlunina. Það er það sem ég á við. Ef þeim er umhugað um málaflokkinn ná þeir í þær tekjur sem til þarf til að fara með málaflokkinn og gera það vel.

Björt framtíð, sá flokkur sem ég starfa fyrir á þingi, er frjálslyndur miðjuflokkur og leggur mikla áherslu á náttúruvernd, er mjög grænn flokkur eins og margir sambærilegir flokkar í Evrópu. Við tilheyrum flokkabandalagi miðjuflokka, frjálslyndra flokka, á vettvangi Evrópusambandsins sem leggur mikla áherslu á mannréttindamál og umhverfismál. Við störfum ásamt með Framsóknarflokknum á vettvangi Norðurlandaráðs. Þar eru margir mjög umhverfisvænir flokkar á miðjunni sem láta sig þennan málaflokk varða. Ég vara við því sem mátti skilja á hæstv. utanríkisráðherra í ræðu hans fyrr í dag að það væri einhver sérstök vinstri pólitík að láta sig varða um náttúruna og umhverfið. Það er af og frá.

Það er afar brýnt að einmitt við sem störfum á miðju íslenskra stjórnmála nálgumst málaflokkinn út frá þeim sjónarhóli. Það er ekki málaflokknum hollt að hann sé dreginn upp sem einhvers konar vinstri pólitík eða sé, með leyfi forseta, „pólaríseraður“ með þessum hætti. Þetta er stór málaflokkur sem skiptir gríðarlegu máli og sífellt meira máli. Við eigum auðvitað að gera þá kröfu að ríkisstjórnin sýni það í verkum sínum að hann skipti máli.