143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég sagði einmitt áðan eða í það minnsta var það það sem ég meinti að það er ekki þannig að vinstri menn hafi einkarétt á umhverfisvernd eða náttúruvernd. Við höfum öll skoðanir á þessu en skoðanirnar eru kannski ólíkar og ef til vill svolítið bil þar á milli.

Mig langar líka að segja að það skiptir ekki máli að mínu viti hvað hlutirnir heita ef stefnunni og málunum og málaflokknum er sinnt.

Mig langar að nefna náttúruverndarlögin sem talað var um. Náttúruverndarlögin sem hér voru sett voru sett í miklu ósætti eins og hv. þingmenn hljóta að muna, þau voru gagnrýnd mjög mikið og um þau var engin sátt. Það að þau fóru í gegn var hluti af því að liðka fyrir þingstörfum, við skulum bara vera alveg heiðarleg með það. Það er alveg ljóst að núverandi stjórnarflokkar höfðu miklar athugasemdir og miklu meiri athugasemdir en komið var til móts við með breytingum á frumvarpinu á þessum tíma. Það er ekkert óeðlilegt að endurskoða þessi lög. Hvað sem menn kalla það, þá er hugmyndin að endurskoða þau.

Mig langar líka að koma því að varðandi rammaáætlun að það er ekki þannig að hæstv. ráðherra sé eitthvað að hræra í því máli og menn vita það að sjálfsögðu. Það er einfaldlega verkefnisstjórnin sem heldur utan um þetta og er að halda áfram sinni vinnu. Hún á að skila af sér ef ég man rétt einhvern tíma í vetur eða vor. Við eigum ekki að slá einhverju svona upp — og ég er ekki að segja að hv. þingmenn hafi gert það — en einhvers staðar eru skrýtin skilaboð á ferðinni um að hæstv. ráðherra sé að hringla í þessu og það er ekki þannig, við vitum það. (Gripið fram í.)