143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:59]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Vegna ámæla sem mér finnst ég hafa legið undir sem framsóknarmaður í umræðu hv. þingmanna hérna á undan vil ég bara segja að ég er mikill náttúruunnandi og umhverfismál eru mér hjartans mál þannig að það sé á hreinu. Það má ekki setja alla framsóknarmenn undir sama hatt þó að við höfum ólíkar skoðanir eða fullyrða neitt um þá.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ætlar að mæta niðurskurði upp á tæpar 400 milljónir fyrir komandi ár og standast hagræðingarkröfu. Mest eru þar verkefni sem eru stutt á veg komin eða ekki hafin og hægt verður á eða hægt að bíða með. Einnig taka allar stofnanir ráðuneytisins á sig hagræðingarkröfu og þurfa að forgangsraða verkefnum sínum.

Því miður er ekki hægt að standa við fjárfestingaráætlun og draga þarf úr fjármagni til Vatnajökulsþjóðgarðs og þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Fresta þarf því uppbyggingu á þessum stöðum. Ég vil samt benda á viðhaldsverkefni hjá Umhverfisstofnun við þjóðgarða og friðlýst svæði upp á 72,5 milljónir. Þetta er alveg rökrétt og ágæt forgangsröðun þar sem mikilvægt er að skila afgangi í ríkisrekstrinum, hætta skuldasöfnun og fjárfesta frekar í heilsu landsmanna. Mér finnst að heilbrigðiskerfið ætti að vera efst á fjárfestingaráætlun.

Umhverfismál og ferðamannafjöldi eru mál sem hæglega er hægt að raða saman. Vegna aukins fjölda ferðamanna og ágangs þeirra á falleg útivistarsvæði og allrar þarfarinnar fyrir fjármagn í málaflokknum tel ég að ráðast verði í útfærslur á hugmyndum um náttúrupassa eða ferðamannapassa. Með hóflegu gjaldi á ferðamenn er hægt að byggja upp innviði þeirra ferðamannastaða sem þurfa á því að halda, t.d. auka uppbyggingu og viðhald í þjóðgörðum eða á friðlýstum svæðum en aðallega þó til að vernda þau svæði sem annars skemmast vegna fjöldans. Þess vegna hvet ég ráðherra umhverfismála til að beita sér í þessu máli.