143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er því miður mikil stöðnun og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Það er sorglegt að stjórnvöld kjósi ekki að snúa vörn í sókn í uppbyggingu nýs Landspítala. Hvert ætla stjórnvöld að stefna með því gífurlega óhagræði sem það er að reka spítalann á 17 stöðum í 100 byggingum sem kostar um 3 milljarða á ári? Hver er framtíðarsýnin þegar augljóst er að Landspítalinn, eins og hann er í dag, stendur í vegi fyrir framförum og hagræðingu og æ erfiðara er að halda í heilbrigðisstarfsfólk við þær slæmu aðstæður sem kemur niður á þjónustu spítalans og öllum aðbúnaði sjúklinga? Ég spyr: Hver er stefnan með nýjan Landspítala?

Komugjöld eru hækkuð verulega og legugjöldum á sjúkrahúsum komið á. Þær tekjur verða ekki settar inn í heilbrigðiskerfið aftur til þess að bæta þjónustu eða auka hana heldur nýttar til að lækka ríkisútgjöld. Af hverju er hækkunum á komugjaldi á heilsugæslu ekki varið til að efla heilsugæsluna? Í frumvarpinu er talað um endurskipulagningu á heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli fyrirliggjandi tillagna um fjölbreytt rekstrarform sem vísar til þess að verið sé að gæla við einkarekstur. Er það stefna heilbrigðisráðherra að einkavæða heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu? Á að bjóða út rekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu? Í frumvarpinu er talað um að sameina stofnanir, bjóða út sérfræðiþjónustu og taka upp þjónustustýringu og blandaða fjármögnun með framleiðnihvötum. Hvað þýðir það, framleiðnihvötum?

Er verið að skoða það módel sem er í gangi á Akureyri þar sem sveitarfélag annast heilsugæsluna fyrir ríkið og getur sameinað heilsugæslu og félagsþjónustu til mikils hagræðis fyrir íbúa, sem er til fyrirmyndar? Fyrirætlanir eru í frumvarpinu um sameiningu á níu heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni, Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi. Ég spyr: Er farin af stað vinna og samráð við heimamenn á viðkomandi svæðum? Þýðir sú sameining bætta þjónustu eða er verið að skerða hana? Og hvernig kemur sparnaður upp á 160 milljónir til við slíka endurskipulagningu? Á hvaða póstum liggur sá sparnaður? Hvað veldur því að endurskipulagningu á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi er sleginn út af borðinu? Þar hafa heimamenn og bæjarstjórnin unnið með heilbrigðisyfirvöldum að því að styrkja grundvöll sjúkrahússins með því að færa inn hjúkrunar- og dvalarrými og ná fram samlegðaráhrifum en það er skorið niður um 70 milljónir. Það sama á við um sjúkrahúsið á Selfossi þar sem skorið er niður um 100 milljónir til að ljúka við uppbyggingu og viðhald á sjúkrahúsinu.