143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Fyrst er það spurningin sem mér auðnaðist því miður ekki tími til að svara en þær voru æðimargar í fyrirspurn hv. þingmanns. Hvað varðar Landspítalann hefur ekkert verið vikið enn þá á neinn ákveðin hátt frá þeirri stefnu sem mörkuð var, að áformað væri að hefja byggingar á nýju rannsóknarbyggingunni 2016, í fyrsta lagi. Ég er með áform uppi í fjárlagafrumvarpinu um að halda verkinu lifandi og taka fyrsta skrefið í einni af þremur byggingunum sem ætlað var að fara í. Verkefnið er enn lifandi.

Varðandi heilsugæsluna og sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni vil ég taka fram að ætlunin með þeim áformum sem unnið hefur verið með í ráðuneytinu í langan tíma er ekki sú að loka einstökum þjónustusvæðum úti á landi. Þvert á móti á að reyna að styrkja þjónustuna sem þar er fyrir hendi með því að fækka og draga saman í yfirstjórn stofnana og eiga meiri möguleika á að nýta þá fjármuni og styrkja faglega þætti í rekstri stofnananna.

Hvað varðar það sem þrástagað er á um einkavæðingaráráttu þess sem hér stendur í heilbrigðiskerfinu þá hef ég margítrekað að það stendur ekkert til að einkavæða íslenska heilbrigðisþjónustu meðan ég gegni þessu embætti. Það eru hins vegar skýr skil á milli einkavæðingar og einkarekstrar. Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur gengið mætavel og ég nefni Salastöðina sem dæmi þar sem ríkið er með samning við einstaklinga. Það er skilgreint hvaða vinnu þeir eiga að skila, hvaða árangri þeir eiga að skila og hvernig eftirliti með þjónustunni skuli háttað. Það hefur gengið afspyrnuvel og er til fyrirmyndar hvernig sú vinna hefur verið unnin.