143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvers vegna þurfum við að ræða málið þessum hætti? Eins og hv. þingmaður, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, veit þá liggur fyrir, meðal annars í skýrslum Ríkisendurskoðunar, það álit að fjárlög fyrir Sjúkratryggingar Íslands eru áætlanir vegna þess að þær byggja á lögum. Fjárlög fyrir Landspítala og sjúkrahúsarekstur eða stofnanarekstur byggja á áætlunum viðkomandi stofnana. Það gildir bara tvennt ólíkt í þessum efnum og uppbótin til sjúkratrygginga stafar ekki af sérgreinalæknum. Stærsti hlutinn stafar af lyfjakostnaði, svokölluðum S-merktum lyfjum.

Sömuleiðis varðandi jafnlaunaátakið, við eigum ekki að þurfa að ræða það með þeim hætti að því sé mætt með því að skera niður tækjakaup og með legugjaldi. Það tvennt dugar ekki einu sinni fyrir þeim útgjöldum. Það eru bara himinn og haf á milli, ætli jafnlaunaátakið kosti ekki ríkissjóð rétt rúmlega 1,5 milljarða á næsta ári, á meðan hitt tvennt er um 800 milljónir. Það liggur fyrir að ég vil endurskoða þær áætlanir sem voru í gangi fyrir sjúkrahúsin og ég tel ekkert óeðlilegt við það, ekki síst í ljósi þess að fjárveitingin til tækjabúnaðar á sjúkrastofnunum á árinu 2013 var tímabundin. Ég vil vinna það með öðrum hætti.

Varðandi byggingu Landspítalans. Að sjálfsögðu munu liggja fyrir áætlanir lok þessa kjörtímabils um það með hvaða hætti farið verður í þetta. Ég tel sjálfur ekkert óeðlilegt að ég taki mér tíma til þess að meta með hvaða hætti ráðist verður í þetta stóra byggingu, ekki síst á þeim tímum þegar við erum að reyna að kappkosta að ná því sameiginlega markmiði okkar að ná hallalausum rekstri ríkissjóðs. Ég er í ágætu sambandi við byggingarnefnd nýja Landspítalans (Forseti hringir.) og á við hana hið besta og mætasta samstarf.