143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:03]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem ég fékk. Ég fagna því að sameining heilbrigðisstofnana muni ekki hafa áhrif á þá þjónustu sem hefur verið veitt og það er mjög gott að hugsunin sé sú að styrkja starfsemi þeirra og það góða starf sem þar er unnið. Ég fagna því jafnframt að litið sé til framtíðar í tækjakosti heilbrigðisstofnana, það er alltaf gott að líta til framtíðar en ekki taka stuttan tíma í einu.

Mig langar samt að fá svar við því hvort hægt sé og hugsanlegt að nýta sjúkrastofnanir í nágrenni Reykjavíkur — Akranes, Keflavík, Selfoss t.d. — í þeim tilvikum þar sem ekki er um bráðatilvik að ræða, í því skyni að reyna að létta álagi af Landspítalanum.

Ég vil ítreka að mér finnst mjög mikilvægt að koma á sanngjörnu greiðsluþátttökukerfi. Ég er persónulega ekki mjög hrifin af þessu legugjaldi en mér finnst samt sem áður að við verðum að gæta jafnræðis þar sem við horfum á sjúklinga greiða tugi þúsunda fyrir meðferðir á göngudeildum.