143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki náð að ljúka svörum við öllum spurningum. Varðandi þá spurningu hvort hægt sé að dreifa álagi af Landspítalanum út á nálægðarsjúkrahúsin er það örugglega gerlegt, alla vega á borði. Ég veit ekki hvernig við stöndum í því faglega miðað við þá stöðu sem uppi er í mönnun þeirra fagstétta sem við erum glíma við um þessar mundir, ekki bara á Landspítalanum heldur mjög víða.

Ég hef sjálfur þá sýn að við eigum frekar að byrja á heilsugæslunni sjálfri og reyna að draga úr álagi bæði hjá sérgreinalæknum eða sérfræðingum og sjúkrahúsunum, byrja fyrst af öllu í heilsugæslunni sem á að vera brjóstvörn heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þannig má minnka bæði álag á þessar sérhæfðu sjúkrameðferðir og einfaldlega draga úr kostnaði vegna þess að heilsugæslan er ódýrasta og besta forvörnin sem við eigum áður en fólk lendir inn í sérhæfðum úrræðum.

Ég vil segja það eitt varðandi þær áherslur sem ég hef heyrt víða um að færa starfsemi af Landspítalanum út á kragasjúkrahúsin eða önnur sjúkrahús eða hvort það sé hægt, að færin til þess fjárhagslega eru ekki ýkjastór eða mikil eins og þingmenn hafa séð á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Þetta er því einhver framtíðarmúsík sem ég er tilbúinn til að skoða og ræða með þingmönnum og þeim stofnunum sem hér um ræðir. Það er ekki gert ráð fyrir því að þannig verði unnið í frumvarpinu eins og það liggur fyrir en er vissulega hugmynd sem vert er að skoða.