143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Verkefnið sem hæstv. ráðherra stendur frammi fyrir er gríðarlega mikilvægt og aðkallandi. Ég er sammála ýmsu í breiðu línunum og held að margir séu það. Það þarf að byggja upp góðan spítala, það þarf að byggja upp almenna heilsugæslu, það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum til að minnka álagið á spítalann og það þarf líka að efla forvarnir og lýðheilsu. Þannig þarf að fara inn í heilbrigðismálin með það að markmiði að ná fram hagræðingu og betri nýtingu á starfskröftum og tíma og fé til að bæta þjónustuna en ekki bara til að ná hallalausum ríkisfjárlögum. Við megum aldrei gleyma þessu markmiði, við ætlum væntanlega að reyna að bæta þjónustuna.

Mig langar að freista þess að sjá aðeins betur á spilin hvað hæstv. heilbrigðisráðherra hyggst fyrir þó svo að ég geti tekið undir megináherslurnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað um nauðsyn þess að byggja upp heilsugæsluna. Mig langar að spyrja: Hvernig er verklagið í þeirri vinnu? Hvenær má vænta þess að einhverjum tillögum verði skilað? Hvað er haft að leiðarljósi í þeirri tillögugerð? Á t.d. að efla heilsugæslu með aðkomu fleiri fagstétta í heilbrigðisþjónustu? Ég mundi fagna því ef það væri gert.

Ég tel mjög skynsamlegt að skoða ólík rekstrarform, ég hef fullkominn skilning á því. Greinarmunurinn á einkavæðingu og einkarekstri er alveg lifandi í mínum huga þannig að ég hef ekkert út á þær áherslur að setja. Spurningin er bara þessi: Hvar stendur þessi vinna, hver eru markmið hennar og hvenær verða kynntar einhverjar niðurstöður?

Ég fagna því að verkefnið að byggja nýjan landspítala og endurbyggja Landspítalann, því að þetta snýst líka um viðhald á húsum sem eru fyrirliggjandi, er lifandi. Ég hyggst hanga svolítið á þeirri yfirlýsingu, það er lifandi sem sagt. Mig langar að heyra meira. Mega t.d. læknar á lyflækningasviði vænta þess að starfsemi þeirra, sem er núna á þremur stöðum, verði sameinuð undir einu þaki í bráð? Ef ekki er hægt að svara því skýrt, hvenær er þá hægt að svara því skýrt? Hvaða forsendur þurfa að liggja fyrir?

Síðan með hjúkrunarrými, það er mikið fagnaðarefni að byggja eigi upp hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala, það léttir álaginu af t.d. lyflækningasviði. Hvað með St. Jósefsspítala, eru einhver ámóta áform um hann?

Mig langar líka að heyra hvort ráðherrann hafi einhver áform í lýðheilsu- og forvarnamálum á kjörtímabilinu.