143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta málefnalega innlegg frá hv. þingmanni. Ég vil lýsa því yfir að mér þótti mjög vænt um að heyra það sjónarmið sem hv. þingmaður dró upp í umræðunni í gær um gjaldtöku af sjúklingum í íslensku heilbrigðiskerfi. Ég held að full þörf sé á að ræða það eins og þar var gert.

Varðandi þær áherslur í heilsugæslunni sem unnið er eftir er unnið í ráðuneytinu á þeim grunni sem liggur fyrir þar. Það var unnin mjög góð vinna af hálfu þáverandi heilbrigðisráðherra árið 2011 í ýmsum efnum, m.a. með fyrirtækinu Boston Consulting Group sem var og hét ráðgjafarhópur sem skilaði ráðherra tillögum, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, í desember 2012. Þær liggja til grundvallar. Til eru ótal skýrslur og tillögur og ég ætla að nefna þær hér í fljótu máli þannig að hv. þingmaður geti kynnt sér þær því að þær eru allar til.

Þetta er samanburður á rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2008 og í Salahverfinu í Kópavogi, álit nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins frá því í desember 2008, kölluð Guðjónsskýrslan, það er allt til. Og álit nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilsuvakt á höfuðborgarsvæðinu, greining á heilbrigðisþjónustu utan dagvinnu o.s.frv. Það er til fullt af efni, tillögum sem þurfa bara að koma til framkvæmda.

Áherslan í þeim efnum núna, ef við tökum fyrst forvarnirnar var sett af stað verkefni sem laut að hreyfiseðlum, draga úr ofþyngd, minnka sykursýki 2, draga úr lyfjakostnaði. Ég hef gefið fyrirmæli um að verkefnið skuli innleitt í alla heilsugæslu á landinu sem fyrsta stig. Bara fjárhagslegur ávinningur af því að spara 10% í þeim hópi sjúklinga sparar lyfjaútgjöld upp á 750 millj. kr. á einu ári.

Af mörgu er að taka og ég heyri að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á málaflokknum. Ég hef það líka en ég kemst því miður ekki (Forseti hringir.) yfir allt fyrr en í síðara svari.