143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Formið hér er mjög knappt og spurningarnar eru stórar. Eftir stendur spurningin um hvenær má vænta skýrari svara með spítalann, t.d. sameiningu lyflækningasviðs undir einu þaki. Eins með St. Jósefsspítala, hvort það séu einhver áform með hann. Svo langar mig að bæta við fleiri spurningum sem eru ekki síður stórar þannig að við gætum eflaust haldið áfram fram eftir degi. Ég fagna því, og þess mætti sjá stað víðar í ríkisrekstrinum, að verið sé að byggja á vinnu sem hefur farið fram, mjög yfirgripsmikilli vinnu. Það mundi ég gjarnan vilja sjá á öðrum sviðum líka, eins og í atvinnumálum svo dæmi sé tekið.

Það sem mig langar að spyrja um er annars vegar varðandi S-merktu lyfin sem er náttúrlega gríðarlega stór útgjaldaliður í ríkisrekstrinum. Það voru hugmyndir hér einu sinni, reyndar frá ráðherra sem var og er í sama flokki og hæstv. ráðherra núna, um að fara í innkaup á S-merktum lyfjum sameiginlega með Norðurlöndum. Ég held að það megi fullyrða að Norðurlöndin fá betri kjör í innkaupum á S-merktum lyfjum. Það voru einhverjir lagalegir annmarkar á þeirri hugmynd á sínum tíma en mig langar að vita hvort það standi til.

Svo langar mig hins vegar að spyrja einnar almennrar spurningar sem út af fyrir sig þarf ekkert langt mál í að svara. Það er gríðarleg fjárþörf í heilbrigðismálum og það er eitt af því sem hæstv. ráðherra glímir við. Það á að lækka skatt, 0,8% af tekjuskatti, sem skilar í raun og veru ekki svo miklum peningum til meðallaunamannsins. Væri ekki skynsamlegra að nota þá 5 milljarða til þess að bæta heilsugæsluna, spítalann og heilbrigðismálin?