143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við viljum öll geta greitt ákveðið mánaðargjald, sama hvort það er í formi skatta eða tryggingagjalds, og verið örugg þegar við veikjumst, þegar við erum hvað berskjölduðust. Við getum verið hægra megin við götuna með lága skatta og greiðum þá sjálf fyrir alhliða sjúkratryggingu eða við getum verið vinstra megin við götuna með háa skatta sem greiða þá alfarið fyrir heilbrigðisþjónustuna okkar. En að velja það versta vinstra og hægra megin götunnar setur sjúklinga út á miðja götu með því að rukka bæði háa skatta og há sjúkragjöld. Þetta er lífshættulegt.

Hlutfall lágtekjufólks sem þurfti að neita sér um nauðsynlega læknisþjónustu fyrir tveimur árum var samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands tæp 7%. Og hundruð þúsunda fyrir krabbameinssjúklinga eru há gjöld. 1.200 kr. gistináttagjald á spítölum er stór biti fyrir suma. Landsmenn hafa nú þegar greitt í formi hárra skatta fyrir lágmarksheilbrigðistryggingu frá hinu opinbera. Það er ómannúðlegt og pólitískt óskynsamlegt að svipta landsmenn því grundvallaröryggi sem landsmenn hafa þegar greitt fyrir.

Mannúðleg hægri stefna brúar ekki fjárhagslegt gat á bökum sjúklinganna. Mannúðleg hægri stefna endurskipuleggur velferðarkerfið og sparar þannig þegar fram í sækir með aukinni skilvirkni. Mannúðleg hægri stefna getur gert góða hluti í efnahagsþrengingum.