143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni, þann þátt heilbrigðismála sem lýtur að því að efnaminna fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu, sendi ég af því tilefni fyrirspurn til landlæknis um þennan þátt af þeirri einföldu ástæðu að ég vildi fá nánari upplýsingar um það hvaða þjónusta það væri sem þessi hópur neitaði sér um. Ég vildi líka fá að vita hvers vegna, af hvaða ástæðum, vegna þess að það liggur ekki fyrir nein bein greining á því hvaða þjónusta þetta er.

Þetta er á sumum sviðum tannlæknaþjónustu en ég tel nauðsynlegt fyrir umræðuna, eins og landlæknir sjálfur hefur raunar bent á opinberlega, að það þurfi að greina þetta nánar þannig að við getum þá reynt að nálgast vandamálið og greiða úr þeim misbresti sem við ráðum við ef það er á okkar færi. Sumir hafa sínar ástæður fyrir því að nota ekki heilbrigðisþjónustu sem eðlilegt getur talist en aðrir hafa hreinlega ekki efni á því eða ekki færi til þess, annaðhvort vegna fjárhags eða fjarlægðar frá þeirri þjónustu sem verið er að veita. Það liggur fyrir að þeir sem oftast fresta læknisheimsóknum eru aðallega ungir að árum í fullri vinnu og hafa stundum átt við fjárhagslega erfiðleika að etja. Svo eru þess líka dæmi að fólk á hreinlega erfitt með að fá leyfi eða fjarvistir frá vinnu til að komast til læknis.

Það sem ég vil leggja áherslu á er að það eru margvíslegar ástæður fyrir því að fólk neitar sér um heilbrigðisþjónustu eða tekur hana ekki. Einnig þurfum við, og ég vil ítreka það, að fá að vita betur á hvaða sviðum heilbrigðisþjónustunnar þetta kemur fram.