143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni hólið í garð hægri manna fyrir hagstjórnarþekkingu þeirra og getu. Það er sjálfsagt að þakka það sem vel er sagt. Ég tek eftir því að þingheimur allur fagnar þessu óskaplega, þar á meðal fyrrverandi fjármálaráðherra þarna úti undir horni.

Hv. þingmaður nefndi að það ætti ekki að leggja greiðslur á fólk ef það væri fársjúkt. Það er örugglega vilji flestra að komast hjá því en ég vil þá minna hv. þingmann á það að veruleikinn er allur annar. Við erum nú til dæmis með þá stöðu uppi að ef menn mæta fársjúkir eða slasaðir á slysadeild er komugjald 5.600 kr. Við erum með göngudeildarþjónustu sem kostar á bilinu 3–31 þús. kr. Á slysadeild Landspítalans og göngudeildum innheimtum við á þessu ári 612 millj. kr. Við vitum að kostnaðurinn sem þar er innheimtur bitnar með ýmsum hætti á einstaklingum. Við vitum líka að víða er verið að leggja á ný gjöld.

Markmið mitt er að þeirri vinnu sem hófst á árinu 2007, leidd af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Pétri H. Blöndal, verði lokið og að við stöndum þá uppi með nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga á Íslandi sem ég tel mjög brýnt að komi fram. Ég veit að það er mjög mikill vilji til þess meðal allra þingmanna að svo verði og ég vonast til þess að okkur auðnist að ljúka því verki. Ég held að það verði til hagsbóta fyrir alla.